143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

krafa um lækkun gengis.

[11:17]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Í dag líður mér svolítið eins og árið sé 1985. Það eru kótilettur í eggi og raspi í matinn í mötuneytinu, sem ég fagna mjög, einn af mínum uppáhaldsréttum, en svo heyri ég líka gamalkunnan kórsöng, mjög þjóðlegan, og hans hefur gætt mjög nú í vikunni. Það eru útgerðarmenn sem fara fram á það, ef ég skil þá rétt, að gengið verði lækkað. Þeim finnst gengi krónunnar of hátt.

Ég velti fyrir mér hvort hér sé komin, í þessari fortíðarmynd, framtíðarsýnin í gengismálum þjóðarinnar, sem lengi hefur verið auglýst eftir. Ég hef meðal annars auglýst eftir henni í þessu ræðustól. Þetta er gamalkunnugt þema, gamalkunnur kórsöngur. Útgerðarmenn, sem gera upp í evrum, eiga viðskipti í evrum, skila dágóðum hagnaði þessa stundina, telja gengi krónunnar of hátt; krónan er sá gjaldmiðill sem þeir borga laun í hér innan lands. Gengisfelling mundi hafa í för með sér hærra verð á neysluvöru til almennings, hærri vexti, hærri verðbólgu. Enn á ný yrðu færðir fjármunir frá hinum mörgu til þeirra færri í íslensku samfélagi. Þetta hefur gerst í áratugi á Íslandi.

Gengið er vitaskuld rangt skráð, við búum við höft, en nú langar mig að spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Hann er fylgismaður þess að halda krónunni, hann vill væntanlega ekki að gengi krónunnar ráðist af framboði og eftirspurn á frjálsum markaði, ég geri ráð fyrir því að hann vilji það ekki vegna þess að það mundi hafa í för með sér hörmungar fyrir íslensk heimili: Tekur hann undir kröfur útgerðarmanna um lægra gengi? Hvað vill hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að ráði genginu í þessu gerviumhverfi?