143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

krafa um lækkun gengis.

[11:20]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Það er alls ekki nýtt og alls ekki heldur séríslenskt fyrirbæri að þegar gengi gjaldmiðilsins er eitthvað að styrkjast kvarti útflytjendur. Þannig eru margir útflytjendur í Noregi í augnablikinu mjög ósáttir við gríðarlega sterkt gengi norsku krónunnar. Þannig prísuðu pólskir útflytjendur sig sæla að hafa ekki þá þegar tekið upp evruna þegar þeirra gjaldmiðill gat gefið eftir gagnvart evrunni. Hið sama gilti fyrir sænska útflytjendur á sínum tíma þegar sænska krónan gaf eftir á móti evrunni þegar fjármálakrísan reið yfir og samkeppnisstaða þeirra batnaði gagnvart finnskum útflytjendum í sömu greinunum.

Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við það að þegar gjaldmiðillinn styrkist eitthvað yfir tímabil segi útflytjendur: Þetta er ekki þróun sem er okkur að skapi.

Hvernig getum við séð fyrir okkur að gjaldmiðillinn þróist inn í framtíðina? Ja, við höfum þrennu úr að spila, þ.e. sjálfstæð peningastjórn, fljótandi gengi og fast gengi. Við getum fengið tvennt af þessu þrennu, þetta eru lögmál peningastjórnunar. Ef við ætlum að hafa sjálfstæða peningastjórn verðum við að velja á milli þess að hafa fast gengi eða fljótandi og þá kýs ég frekar fljótandi gengi með einhverjum skilyrðum á borð við þau sem Seðlabankinn hefur kynnt í nýlega útgefnu riti sínu um peningamál eftir höftin.

Þar eru dregnar fram ábendingar um það sem þurfi að betrumbæta í peningamálastjórninni á Íslandi til að draga úr ókostum þess sem við höfum þekkt á umliðnum árum þegar stórir fjármálagerningar geta haft veruleg áhrif á gengið og þar með hag alls almennings í landinu. Ég nefni til dæmis söfnun viðskiptabanka á innlánsreikninga í erlendri mynt. Við þurfum að girða fyrir slíka hluti í framtíðinni.