143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

krafa um lækkun gengis.

[11:23]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Það er einhver misskilningur í gangi hér þegar hv. þingmaður skilur mig á þann veg að ég vilji endilega verða við kröfu útgerðarinnar um það hvar gengið eigi að vera. Ég er einfaldlega að benda á það að eftir að gengið hefur styrkst, eins og hefur gerst undanfarna mánuði, er ekki við öðru að búast en að útflytjendur í landinu, útgerðarmenn eða aðrir, bendi á að þetta komi illa við þá.

Og hvað gerðist? Það er bent á að krónan hafi hrunið. Nú, tók hún það bara upp hjá sjálfri sér? Var það ekki í neinum tengslum við það sem var að gerast í efnahagslífinu? Íslendingar söfnuðu skuldum langt umfram það sem þeir gátu staðið við, þess vegna erum við með gjaldþrot sem mælast á lista yfir tíu stærstu gjaldþrot veraldarsögunnar og við erum enn í uppgjörsfasanum. Það eru höft af þeim sökum. Gengið lagar sig einfaldlega að nýjum veruleika. Gengið var of sterkt. Menn verða bara að horfa á viðskiptajöfnuðinn til að átta sig á því að gengið var allt of sterkt og við höfum tekið út of mikinn kaupmátt í aðdraganda hrunsins.

Ég aðhyllist stefnu sem byggir frekar á fljótandi gengi en þá verðum við að sýna meiri aga í opinberum fjármálum og við þurfum að styrkja útflutningsatvinnuvegina og gæta að því að vera ekki að safna upp viðskiptahalla. (Forseti hringir.) Þá tel ég að við getum með ákveðnum aðlögunum haft fljótandi gengi og sjálfstæða peningastjórn í landinu.