143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald aðildarviðræðna.

[11:32]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Er „tafarlaust“ teygjanlegt hugtak? spyr ég hæstv. heilbrigðisráðherra. Þessi fyrrverandi 2. varaformaður Sjálfstæðisflokksins lýsti því yfir fyrir ári að hann vildi tafarlausa þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Þessu lýsti hann yfir í aðdraganda kosninga og ég spyr hæstv. ráðherra hvenær þessi tafarlausa þjóðaratkvæðagreiðsla hans um framhald aðildarviðræðna fari fram eða hvort hann er undir sömu sök seldur og aðrir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins að ætla blákalt að svíkja þau loforð sem hann gaf fólki í sínu kjördæmi fyrir síðustu kosningar. Er það rétt sem fram hefur komið hjá hæstv. forsætisráðherra, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, að forustumenn Sjálfstæðisflokksins hafi aldrei beðið Framsóknarflokkinn í stjórnarmyndunarviðræðum um að efnt yrði til þessarar tafarlausu þjóðaratkvæðagreiðslu sem hæstv. heilbrigðisráðherra lofaði almenningi fyrir síðustu kosningar?

Ólíkt forustumönnum Sjálfstæðisflokksins hafa hér á síðustu dögum forustumenn Framsóknarflokksins, meðal annars hæstv. utanríkisráðherra, stigið í þennan ræðustól og rétt fram sáttarhönd eftir þær miklu deilur sem þeir hafa skapað með vanhugsuðum tillöguflutningi í þinginu og lýst því yfir að þeir telji koma sterklega til álita að hverfa frá þeirri tillögu sem hér liggur fyrir og taka til athugunar einhvers konar málamiðlun, svo sem eins og fram hefur komið í tillögum frá öðrum þingflokkum. Þá spyr ég hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann vilji fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins reyna að rétta fram einhverja slíka sáttarhönd eða gefa kost á því að þessi slitatillaga sem sundrað hefur íslenskri þjóð þegar hún þarf að standa saman verði dregin til baka.