143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[11:49]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir gott andsvar og biðst forláts á því að hafa misst af ágætri ræðu hans um þetta mál. Ég viðurkenni að ég var við önnur störf þegar hún var flutt og þykir það mjög miður, en heyri það að ég þarf að taka mér tíma í að hlusta á upptöku af henni sem ég finn á vef Alþingis, enda efast ég ekki um að hún hafi — (ÖS: Eða biðja mig um að flytja hana aftur.) eða hv. þingmaður getur flutt hana aftur fyrir okkur, þá væntanlega á mjög stuttum tíma.

Það kemur mér á óvart að hv. þingmaður, sem var áður ráðherra og fór með þennan málaflokk, komi hér upp og segi að við höfum einungis þurft eina varanlega undanþágu. Ég veit ekki annað en að menn hafi komið hér upp margoft og sagt að við mundum fá svo mikið af undanþágum að þetta yrði allt saman sérsniðið að Íslandi. Á tímabili þegar við vorum að ræða þessi mál á síðasta kjörtímabili fannst manni eins og Evrópusambandið væri að ganga í Ísland en ekki Ísland í Evrópusambandið. Það kemur mér svolítið á óvart en hv. þingmaður kemur kannski betur inn á það á eftir.

Það rímar ekki við meginniðurstöður skýrslunnar sem hv. þingmaður vísaði til að hægt sé og að það séu einhver fordæmi fyrir því að þjóð fái varanlegar undanþágur frá heilu málaflokkunum hjá Evrópusambandinu. Hvar hefur það verið gert? Hvenær hefur það verið gert? Það brýtur gegn grundvallarinntaki samstarfs Evrópuþjóða sem eiga sér samstarf í Evrópusambandinu um að þjóðirnar sitji við sama borð, fylgi sömu reglum. Vegna þessa grundvallarsjónarmiðs eru varanlegar undanþágur ekki til. Það er hægt að semja til ákveðins tíma um einhverja lengri aðlögun á ákveðnum málefnasviðum en að hægt sé að kippa heilu málaflokkunum út með varanlegum undanþágum — hvaða dæmi hefur hv. þingmaður um það?