143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[12:00]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú ekki annað hægt en að hafa samúð með hv. þingmanni að hún skuli ekki treysta sér til að ræða yfirlýsingar ráðherra Sjálfstæðisflokksins og kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins í þessum efnum. Það er þó óvenjulegt að þingmaður sem situr fyrir ákveðinn stjórnmálaflokk á Alþingi telji sig ekki eiga að svara fyrir kosningaloforð síns eigin flokks eða kosningayfirlýsingar sinna eigin forustumanna, en þetta er auðvitað svo neyðarleg staða að það er eðlilegt að hv. þingmaður vilji ekki bera ábyrgð á henni. En það er auðvitað ekki verið að hengja sig í neitt í umræðunni með því að vísa til skýrra og afdráttarlausra loforða allra ráðherra eins stjórnmálaflokks við kjósendur.

Ég vil spyrja hv. þingmann um hagsmunamatið, vegna þess að það er afstaða aðila vinnumarkaðarins, Samtaka atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar í landinu að það eigi, hagsmuna Íslands vegna, að ljúka aðildarviðræðunum og láta á það reyna hvaða hagsmuni við náum að tryggja í slíkum samningaviðræðum. Ég hlýt að spyrja hv. þingmann: Hvað er það sem veldur því að hv. þingmaður telur sig vita betur og geta haft vit fyrir forustunni í íslensku atvinnulífi um mat á hagsmunum Íslands í þessu efni? Eigum við að treysta forustumönnunum í íslensku atvinnulífi fyrir því að leggja hagsmunamat fyrir atvinnulífið og íslenska atvinnuhagsmuni eða eru einstaka þingmenn Sjálfstæðisflokksins betur til þess fallnir að meta hagsmuni íslensks atvinnulífs en forusta atvinnulífsins sjálfs? Það væri ágætt ef hv. þingmaður gæti skýrt það vegna þess að til þessa hélt ég að Sjálfstæðisflokkurinn hefði treyst hagsmunamati forustumanna í atvinnulífinu en ekki talið að stjórnmálamenn ættu að hafa vit fyrir þeim.