143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[12:02]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég átta mig ekki á þessum málflutningi. Er það skoðun hv. þingmanns að Alþingi Íslendinga og löggjafarvaldið þar með sé óþarft, og við ættum bara að fela Samtökum atvinnulífsins að stjórna Íslandi í öllum grundvallaratriðum? Ég átta mig einfaldlega ekki á því á hvaða vegferð hv. þingmaður er. Þegar tekin er afstaða til mála í þinginu er maður bundinn af sinni eigin sannfæringu, maður fer yfir hvert einasta mál á grundvelli þeirra gagna sem maður hefur, reynir að afla sér þeirra upplýsinga sem hægt er, reynir svo að taka afstöðu til þeirra mála sem uppi eru. Þannig hef ég farið í gegnum þessi Evrópumál. Ég tel að það sé algjörlega ljóst í ljósi heildarhagsmuna íslensku þjóðarinnar, ekki heildarhagsmuna einhverra einstakra atvinnugreina, ég met málið á stærri grundvelli en það, að standa fyrir utan Evrópusambandið.

Ef hv. þm. Helgi Hjörvar telur sig eiga að fara eftir þeim reglum sem hann var sjálfur að reyna að lista upp fyrir mér að ég ætti að fara eftir, er hann þá bara handbendi einhverra einstaklinga úti í bæ eða er hann handbendi Samtaka atvinnulífsins í þinginu? Hvernig á þetta eiginlega að virka? Ég skil ekki þessa hugmyndafræði. Ég held að hv. þingmaður hafi einfaldlega ekki alveg verið búinn að ákveða um hvað hann ætlaði að spyrja og farið að fabúlera eitthvað í pontunni. Þetta var afskaplega einkennilegt.

Grundvallaratriðið er að ég tel að þessi umræða muni skila mestum árangri ef við tölum um málefnið sem er til umræðu, tölum um hvar hagsmunir íslensku þjóðarinnar liggja, að við tölum um hvaða afleiðingar og hvaða valdaframsal felst í því að ganga í Evrópusambandið fremur en að vera í einhverjum Morfís-ræðum um hver eigi í raun og veru að stjórna Íslandi, hvort það séu Samtök atvinnulífsins eða löggjafinn sjálfur sem eigi að fara með lagasetningarvaldið.