143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[12:25]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég held að við deilum þeirri skoðun að við viljum, eins og ég sagði áðan, ná í samning þannig að þjóðin sjái í rauninni hvað hún hafi að semja um og greiða atkvæði um. Auðvitað má segja að mörg góð mál hafi runnið undan rifjum Evrópusambandsins, eins og í umhverfismálum o.fl. Þaðan hefur margt gott komið.

Þingmaðurinn minntist á auðlindamálin. Það eru þau sem við höfum mestar áhyggjur af. Að því gefnu að við héldum yfirráðum yfir þeim að því marki sem við getum sætt okkur við þá er í sjálfu sér helst fjarlægðin frá þeim stað þar sem ákvarðanir eru teknar sem ég óttast. Þrátt fyrir það erum við að mörgu leyti í dag, eins og ég sagði í ræðunni, þátttakendur í alþjóðastarfi og erum búin að afsala okkur valdi á mjög margan hátt. Það yrði samt sem áður meira um það og þrátt fyrir að við hefðum rödd innan sambandsins er ég ekki viss um að það tryggði okkur endilega að við næðum fram þeim málum sem við þyrftum hverju sinni. Ég hef líka sagt að það sé breytilegt eins og annað í samfélaginu, bæði Evrópusambandið og staða okkar sem þjóðar.

Í sjálfu sér er erfitt að segja hvað maður óttast og hverju maður mundi fagna. Jú, auðvitað mundi maður kannski frekar vera tilbúinn að fagna því ef auðlindamálin næðust í gegn, (Forseti hringir.) en óttinn við að missa samt sem áður tökin á því sem maður þó hefur (Forseti hringir.) fælir frá.