143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[12:28]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Í rauninni mætti líka orða spurninguna með eftirfarandi hætti: Ef við næðum í aðildarviðræðum við Evrópusambandið fram þeim þáttum sem fram koma í þingsályktunartillögunni, sem við Íslendingar þyrftum að ná fram í viðræðum, og Alþingi samþykkti, væri hv. þingmaður þá stuðningsmaður þess að gerast aðili að Evrópusambandinu?

Ég tek undir með þingmanninum, það er auðvitað grundvallaratriði að við höfum forræði yfir auðlindunum. Mér þykja fjarlægðarrökin vera nokkuð merkileg því að ég hefði haldið að fjarlægðin væri mest þegar við erum ekki til staðar. Í dag erum við ekki til staðar í Evrópusambandinu þar sem ákvarðanirnar eru teknar.

Hæstv. utanríkisráðherra hefur nýverið kynnt stefnu í Evrópumálum þar sem mér skilst að tveir eða þrír fulltrúar okkar eigi að vera á kaffistofunni í Brussel eða á göngunum þar og reyna að fá að vita hvað sé um að vera og reyna að hafa áhrif eftir þeirri leið. Ég hefði haldið að nálægðin við þann stað þar sem ákvarðanir, sem ráða mestu um daglegt líf okkar, eru teknar væri mest ef við værum fullgildur þátttakandi og auðvitað líka vegna þess að um hin stærri mál í heiminum semja orðið tiltölulega fáir á vettvangi heimsmálanna. Evrópusambandið er einn af þeim og meðan við erum ekki aðili að því eigum við enga aðkomu að helstu alþjóðasamningum um stærstu hagsmunamál í heiminum en með aðild að sambandinu fáum við aðkomu að því og getum a.m.k. sagt hver okkar hugur er í málinu þó að við munum auðvitað ekki ein ráða úrslitum mála, eðli málsins samkvæmt.