143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[12:45]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Eins og fram kemur í kafla sem ritaður var af einum af ágætum félögum hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar lá samningsafstaðan fyrir. Það var einfaldlega þannig. Hún hefur verið send utanríkismálanefnd af hæstv. utanríkisráðherra að beiðni eins nefndarmannsins. Þannig að bæði varðandi sjávarútveg og landbúnað lágu þessar samningsafstöður fyrir. Að því er sjávarútveginn varðaði var hún ágreiningslaus. Að því er varðaði samningsafstöðuna í landbúnaði var ágreiningur við bændur. Þeir lögðu fram sex eða sjö rauðar varnarlínur sem þeir kölluðu svo. Við töldum að við hefðum svarað öllum nema einni, hún laut að nákvæmlega þessu tiltekna atriði. Um það er fjallað í viðauka Ágústs Þórs Árnasonar, aðjúnkts við Háskólann á Akureyri, svo að það liggi algjörlega skýrt fyrir. Það er alveg rétt að ágreiningur var um tollverndina.

Hv. þingmaður sagði réttilega að gert hefði verið ráð fyrir 18–24 mánaða viðræðutíma. Þannig lagði ég það upp að þegar væri komið í viðræðurnar mundi það taka þann tíma eins sérfræðingar Evrópusambandsins og stækkunarstjórinn lögðu það upp, þ.e. 18 mánuði. Hv. þingmaður finnur ekkert í áliti meiri hlutans um annað. Það lá alveg klárt fyrir samkvæmt þeim reglum sem samþykktar voru 2006 af Evrópusambandinu að það þyrfti tiltekna undirbúningsvinnu áður, gríðarlegum fjölda spurninga þurfti að svara, sömuleiðis rýnivinnu sem við töldum að vísu að við mundum geta fengið nokkra undanþágu frá og fengum að því er varðaði EES-kaflana — þar var bara einn rýnifundur í staðinn fyrir tvo ella.

Það breytir því ekki að við komumst ekki í það að fara í þessa tvo kafla. Ég ætla ekki að rifja upp hér hvað olli ágreiningnum og töfinni í landbúnaðinum, hv. þingmaður veit það. Hitt get ég sagt honum, eins og kemur fram í skýrslunni, að það var (Forseti hringir.) fyrst og fremst tvíhliða deila um makrílinn sem olli því að ekki tókst að koma fram rýniskýrslu af hálfu Evrópusambandsins. Þar af leiðandi var okkur ekki boðið (Forseti hringir.) að leggja fram tilbúna samningsafstöðu.