143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[12:50]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir ræðu sína, innblásna að venju. Þar voru miklir kostir Evrópusambandsins tíundaðir í mörgum liðum svo þar draup nánast smjör af hverju strái.

Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins um þær deilur og þá gagnrýni sem hefur verið á Evrópusambandið, ekki síst frá vinstri væng stjórnmálanna vegna viðbragða framkvæmdastjórnar sambandsins við evrukrísunni, um þá stefnu sem framkvæmdastjórnin hefur tekið að standa fyrir. Hún hvetur til mjög mikillar niðurskurðarstefnu sem meðal annars birtist þegar Frakklandsforseti, vinstri maðurinn sem gegnir því embætti, François Hollande, lenti í deilum við framkvæmdastjórnina því að hann vildi fremur fara þá leið sem sú ríkisstjórn sem við hv. þingmaður áttum bæði sæti í fór, þ.e. hina blönduðu leið tekjuöflunar og niðurskurðar. Frakklandsforseti fékk fyrir það ákúrur frá Evrópusambandinu sem vildi fremur horfa til niðurskurðar ríkisútgjalda. Nú er það eitthvað sem er ekki á valdi Evrópusambandsins, ekki enn þá alla vega, að ákveða hvernig nákvæmlega ríkisfjármálum er háttað en þetta hefur hins vegar líka verið krafan, og Evrópusambandið gagnrýnt harkalega fyrir það, í þeim ríkjum sem hafa þurft á aðstoð sambandsins að halda.

Auðvitað eru aðstæður þar talsvert mismunandi þannig að ekki er auðvelt að leggja öll þau ríki að jöfnu sem hafa þegið slíka aðstoð og björgun Evrópusambandsins.

Hvert er mat hv. þingmanns? Telur hann að Evrópusambandið, sem vissulega hefur sína kosti, hafi hreinlega færst of langt til hægri og horfið frá þeim félagslegu sjónarmiðum sem einkenndi um margt ákvarðanatöku þar með því að fylgja þeirri hörðu niðurskurðarpólitík sem hv. ríkisstjórn sem nú situr á Íslandi hefur líka tekið upp?