143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[12:52]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þessi spurning tekur á kjarna Evrópusambandsins og sveigjanleika þess. Ég tel ekki að Evrópusambandið hafi horfið frá sínum upprunalegu félagslegu gildum, sem aftur eru sennilega andlag þeirrar sterku andstöðu sem er að finna meðal hægri vængsins á Íslandi gegn Evrópusambandinu. Ég tel að félagsleg vernd í krafti þess og ávinningar sem launþegahreyfingar hér á landi og annars staðar hafa notið sé enn í góðum gangi.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að um skeið fylgdi Evrópusambandið svipaðri stefnu og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn um það hvernig ríki ættu að bregðast við kreppu og fjárhagserfiðleikum. Það má segja að viðsnúningur á þeirri þróun á heimsvísu hafi hafist hér á landi þegar íslensku ríkisstjórninni tókst með sannfærandi rökum að fá AGS til þess að breyta afstöðu sinni um hvernig ætti að ráðast gegn þeirri stöðu sem var komin upp hér. Það gekk upp og í kjölfarið, sérstaklega eftir að Christine Lagarde tók við hjá sjóðnum gjörbreyttist stefnan. Þetta smitaði til Evrópu. Fyrst, eins og hv. þingmaður sagði, með kvörtunum Hollande, forseta Frakklands. Að lokum breytti hann og fleiri viðhorfi Evrópusambandsins.

Það kom síðan fram með beinhörðum hætti í því að löndum eins og Portúgal, Spáni, Írlandi, hugsanlega fleirum, var veittur lengri frestur til þess að ná fram markmiðum sínum, ekkert ósvipað og við sömdum um hér á sínum tíma. Þetta hefur leitt til þess að það má segja að Evrópusambandið hafi í reynd horfið frá því sem, með leyfi forseta, má á ensku kalla „austerity policy“. Menn eru orðnir sér meðvitaðir um að mikilvægt er á svona tímum að ríkissjóður haldi áfram að setja peninga, bæði á hina félagslegu hlið en líka fjárfesta í innviðum til þess að skapa störf og veltu (Forseti hringir.) og velmegun.