143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[12:54]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það er mat mitt að í þá skýrslu sem Hagfræðistofnun skilaði og var til umræðu í þarsíðustu viku vanti í raun og veru alla umfjöllun um þetta. Mig langar að inna hv. þingmann eftir því, því að hann situr í hv. utanríkismálanefnd, hvort ekki sé öruggt að nefndin muni taka fyrir þessa vídd. Það er ánægjulegt að heyra að hann telji að orðið hafi ákveðin áherslubreyting hjá Evrópusambandinu. Ég held að það sé eitthvað sem skiptir máli að taka til umræðu í tengslum við skýrsluna.

Tími minn er stuttur en mig langar að spyrja hv. þingmann. Þær kröfur sem við verðum vör við núna sem tengjast þessu máli snúast ekki fyrst og fremst um Evrópusambandið heldur að þjóðin hafi um það að segja hvernig málinu verður fram haldið. Telur hv. þingmaður að eitthvað sé hægt að vinna með þá tillögu sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt fram til að ná efnislegri (Forseti hringir.) sátt á Alþingi um þetta mál?