143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[13:36]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þingmanninum ræðuna sem mér fannst ágæt. Ég heyri það að við deilum þeirri skoðun að heppilegt sé að klára aðildarviðræðurnar og leggja samning á borð fyrir þjóðina sem hún getur tekið afstöðu til. Ég hef talað um það í þeim ræðum sem ég hef flutt hér og ég get verið henni sammála um túlkunina á umræðunni, þ.e. þegar fullyrt er að farið hafi verið af stað með röngum hætti, þá er væntanlega verið að vísa í að ekki hafi verið þjóðaratkvæðagreiðsla á þeim tíma, 2009, þegar lagt var af stað. Ég hefði sjálf viljað að það hefði verið gert, en niðurstaðan varð að gera það ekki og til lítils að sýta það. Ég tek líka undir að umræðan hefur þroskast. Kannski þurfti málið bara þennan tíma.

Af því að hér hefur líka verið haldið fram að best hefði verið að byrja á stóru köflunum og ljúka viðræðunum á stuttum tíma þá hefur samflokksmaður minn, hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, farið yfir það mál og hvernig það kom fyrir utanríkismálanefnd. Það var nefnilega ekki alveg svo einfalt. Það var talið eðlilegt að ljúka þeim málum sem við erum nú þegar í samvinnu með, m.a. innan EES-samningsins. Hann talaði líka um að þessi samningur mundi líklega ekki líta dagsins ljós fyrr en í fyrsta lagi 2013. Þannig að ég held að það hafi einmitt verið ágætt að þetta fékk að taka þennan tíma.

Það er margt sem hefur komið fram í umræðunni og m.a. átti að kynna skýrsluna, sem við vorum að ræða um á dögunum, fyrir þjóðinni og hefur ekki verið gert.

Mig langar hins vegar að spyrja hv. þingmann hvað hún óttist mest varðandi inngöngu í Evrópusambandið, hvað hún telji að við þurfum helst að varast við sambandið. Einnig hvernig hún telur stöðu ungs fólks vera innan sambandsins.