143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[13:38]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þessar spurningar.

Ég tel auðvitað eins og aðrir að við eigum að halda mjög fast utan um okkar hagsmuni og vera með skýrt skilgreind markmið í okkar samningum. Ég tel raunar að mjög margt hafi unnist í því ferli sem við vorum þó lögð af stað með. Ég deili áhyggjum af höfuðatvinnuvegunum eins og aðrir, en ég tel mig þó hafa fengið nægilegar vísbendingar, í þeim upplýsingum sem ég hef viðað að mér, um að hvergi standi til að ráðast á þá með einhverjum hætti þannig að við stöndum eftir slipp og snauð. Það er ekki það sem ég held að Evrópusambandið gangi út á.

Ég held að vel sé hægt að standa vörð um þá hagsmuni okkar og vil líka líta til þess í stærra samhengi hvað það er sem við getum fengið til baka. Það er nú einu sinni þannig að þó svo að þetta hafi verið höfuðatvinnuvegir okkar, þá á ég aðallega við sjávarútveg, þýðir það ekki endilega að svo verði um ókomna framtíð. Hlutirnir eru að þróast. Auðvitað verður sjávarútvegur alltaf mikilvægur fyrir okkur Íslendinga, einfaldlega vegna þess að við eigum gjöful fiskimið og okkur er alltaf að takast að vinna meira úr þeim afurðum sem við veiðum. En það verður líka að líta til þess að hlutirnir geta breyst, við getum þróast í aðrar áttir og við eigum að nýta tækifæri og tækninýjungar og hugvit. Þar held ég að ungt fólk geti komið mjög sterkt inn. Ég neita að líta svo á að heimurinn sé svona svart/hvítur og þó svo að það líti þannig út í dag að þetta sé höfuðatvinnuvegur okkar verður kannski eitthvað allt annað höfuðatvinnuvegur okkar eftir hundrað ár.