143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[13:40]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég tek undir þetta með henni, við upplifum það núna að sjávarútvegurinn er ekki stærsta atvinnugrein okkar heldur ferðaþjónustan, og auðvitað er heimurinn breytilegur og margt sem við getum nýtt okkur. Ég hef aldrei dregið í efa að það er ekkert svart eða hvítt í þessum Evrópumálum. Ég tel að við eigum afar margt sameiginlegt, en það eru líka hlutir sem við höfum vissulega áhyggjur af. Þess vegna held ég að við deilum einmitt þeirri sýn að niðurstöðuna fáum við ekki nema með samningi.

Við getum alltaf verið að fílósófera hér og skiptast á skoðunum um það hvað við teljum vera væntanlega eða hugsanlega niðurstöðu og haft miklar skoðanir á því. Sumir telja sig vita svörin við öllu nú þegar út frá þeim gögnum sem liggja fyrir. Ég er ein af þeim sem tel svo ekki vera. Ég geri t.d. ráð fyrir því að einhverjar nýjar upplýsingar birtist í þeirri skýrslu sem Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands er að vinna.

Ég held að opin og hreinskiptin umræða í þjóðfélaginu sé af hinu góða og varðandi aðkomu þjóðarinnar höfum við í Vinstri grænum einmitt talað svolítið mikið fyrir lýðræðissjónarmiðinu. Við höfum lagt fram þingsályktunartillögu sem miðar að því að ná fram einhverjum sáttum í málinu, því þetta er stórt mál og skiptar skoðanir um það. Ef við eigum einhvern veginn að reyna að ná utan um það til þess að loka því ekki, eins og lagt er til í þessari tillögu hér, langar mig að spyrja þingmanninn hvort hún mundi geta aðhyllst þá (Forseti hringir.) tillögu.