143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[13:44]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Mér fannst margt áhugavert sem var komið inn á. Eitt sem situr eftir í mér er umræðan um sjálfsmynd okkar Íslendinga og hvernig umræðan um Evrópusambandið er tengd sjálfsmynd okkar. Ég held að þar sé hægt að skipta fólki í þrjá hópa: Þeir sem telja að við munum missa fullveldi og sjálfstæði og að allt muni breytast hvað varðar sjálfsmynd, að vegið sé að sjálfsmyndinni ef við göngum í sambandið. Svo er sá hópur sem í ísköldu hagsmunamati hefur metið sem svo að við ættum ekki að fara inn, eða að við ættum að fara inn. Síðan er það sá hópur sem mér heyrist við hv. þingmaður tilheyra, sem telur að það skipti mjög miklu máli að við endurheimtum fullveldi þjóðarinnar með því að eiga sæti við borðið.

Mér finnst oft í þessari umræðu við Íslendingar gera kröfu um að eiga okkar sérstöku aðild að meira og minna öllu, að fá að koma að hlutunum á okkar hátt. Í þessu tilfelli erum við orðin svolítið eins og unglingurinn á hjólabrettinu að teika rútuna. Við vitum ekkert hvert hún fer og við erum laus á hjólabrettinu og gætum þess vegna dottið af í skarpri beygju.

Ég held að við hv. þingmaður deilum — ef ég skildi ræðu hennar rétt — þeirri lífssýn að með því að ganga í Evrópusambandið verðum við Íslendingar stolt þjóð, sjálfstæð þjóð við borðið með öðrum stoltum sjálfstæðum þjóðum og endurheimtum þar með fullveldi okkar, styrkjum sjálfsmynd okkar til lengri tíma og styrkjum líka ímynd okkar út á við.