143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[13:47]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa hugleiðingar. Ég tek að mörgu leyti undir þær. Þótt ég hafi ekki gert upp hug minn í þessu efni öllu þannig að ég sé eindreginn stuðningsmaður þess að við göngum í Evrópusambandið held ég að það ferli allt saman hafi ákveðið uppeldislegt hlutverk fyrir okkur sem þjóð og geti skilað okkur sem betra samfélagi eftir að hafa farið í gegnum allar þær spurningar sem hv. þingmaður nefnir. Þar er sjálfsmynd okkar mjög mikilvæg.

Mín sjálfsmynd er ekki sú að ég sé einungis Íslendingur. Mín sjálfsmynd er sú að ég er íbúi í þessum heimi og þessum hluta af heiminum. Mér finnst við hafa margt fram að færa og geta fært öðrum þekkingu og reynslu og líka lært af öðrum. Við gerum það og ég þori að fullyrða að mikill meiri hluti þingmanna til dæmis hafi sótt sér einhverja menntun erlendis. Við viljum vera undir áhrifum frá öðrum. Ég held að umræða um fullveldi og skoðanir okkar og skilgreiningar á fullveldi séu að þroskast og eftir reynslu mína af Reykjavíkurborg til dæmis held ég að mikilvægi borga sé alltaf að verða meira og meira og að þjóðarvitund og sterk þjóðerniskennd séu kannski að einhverju leyti á undanhaldi, eða þarfnist alla vega endurskilgreiningar.

Mér finnst þetta mjög áhugaverð umræða. Ég held að hún gæti dýpkað og skilað okkur á betri stað ef við förum í þetta ferli fyrir alvöru og klárum það.