143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[13:53]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögu utanríkisráðherra um slit á viðræðum um umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Í umræðunni hafa líka verið ræddar tillögur Pírata og fleiri og okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Eðli málsins samkvæmt hefur umræðunni nokkuð undið fram í takti og í tengslum við það sem er að gerast í samfélaginu að öðru leyti því að þetta er ekki hefðbundið mál sem við erum að ræða hér. Þetta er ekki mál sem varðar einfaldar spurningar um þingsályktunartillögur eða lagafrumvörp með hefðbundnum hætti heldur er um að ræða gríðarlega stórar spurningar sem skipta máli fyrir hagsmuni Íslands um langa framtíð og eru greinilega spurningar sem þjóðin telur sig varða.

Það er nokkuð sérstakt að frá því að málið kom hér á dagskrá með nokkrum skruðningum, eins og við öll erum minnug, hefur umræðan tekið allnokkrum vendingum. Það er því kannski rétt að reyna að ræða fremur pólitíska stöðu málsins en beinlínis þá tillögu sem lögð var fram þennan örlagaríka föstudag vegna þess að það sem hefur gerst síðan, eftir að ræðurnar allar voru haldnar um ómöguleikann og viðtölin öll voru tekin um þann hinn sama ómöguleika, hefur tónninn í ríkisstjórnarflokkunum tekið nokkrum breytingum til góðs. Fyrst og fremst liggur í loftinu að menn horfast í augu við, óháð innihaldi máls og afstöðu sinni, þessa stóru spurningu: Var óráðlegt að fara fram með svo miklum gassagangi vegna þess að það setti umræðuna strax í mjög harkalegan átakafarveg?

Í tilefni af því langar mig sérstaklega að taka undir þau orð sem margir hafa haft uppi í umræðunni og þakka fyrir afar góða umræðu, sérstaklega síðustu tvo, þrjá dagana, sem hefur einkennst af raunverulegum skoðanaskiptum. En það hefur líka gerst og í umræðunni um málsmeðferð og stöðuna sem uppi er að menn hafa verið krafðir svara. Það er ekki bara hæstv. utanríkisráðherra sem hefur verið krafinn svara heldur þeir sem töluðu mjög skýrt í aðdraganda kosninga um hvað stæði til. Ef einhverjir í ráðherraliði Sjálfstæðisflokksins vilja halda því fram að þeir hafi ekki lofað því fullum fetum að spurningin færi til þjóðarinnar, má a.m.k. segja mjög skýrt að þeir sögðu aldrei, hvorki í aðdraganda kosninga né í stjórnarsáttmálanum, að það sem þingsályktunartillagan ber í sér stæði til. Það var ekki gert.

Í óundirbúnum fyrirspurnatíma í dag áttu sér stað nokkur tíðindi þar sem hv. þm. Helgi Hjörvar spurði Kristján Þór Júlíusson, hæstv. heilbrigðisráðherra, hvort hann hygðist efna margumrætt kosningaloforð um tafarlausa þjóðaratkvæðagreiðslu. Og það voru tíðindi í því hvernig hæstv. ráðherra svaraði, vegna þess að hann svaraði sem svo: Í fyrsta lagi hefði ekkert kosningaloforð verið svikið enn, sem er náttúrlega dálítið kúnstugt orðalag í sjálfu sér vegna þess að það gefur kannski til kynna að það standi til eða gæti verið í pípunum, en látum það liggja milli hluta, því að ráðherrann segir: Þvert á móti hefur formaður Sjálfstæðisflokksins, og vísar til hæstv. ráðherra Bjarna Benediktssonar, lýst yfir vilja til þess að beita sér fyrir því að það verði samkomulag milli þingmanna — og um hvað? Um að koma með einhverjum hætti þjóðinni að þeirri ákvörðun sem þarf að taka í þessu máli.

Þetta voru nokkur þáttaskil í umræðunni allri vegna þess að menn hafa reynt að halda sameinaðri framhlið í málinu, ef svo má að orði komast, þó að maður lesi það úr bæði orðum og yfirlýsingum hæstvirtra ráðherra og frammámanna ýmissa í báðum stjórnarflokkunum að mönnum þyki nokkuð geyst hafa verið farið í byrjun. Hæstv. utanríkisráðherra hefur ítrekað sagt að hann telji full efni til að skoða málið vel í nefndinni. Hann hefur líka sagt að honum þyki tillaga Vinstri grænna allrar skoðunar verð og ég vona að ég fari rétt með það. Það er því ákveðinn tónn í umræðunni sem veit á gott að mínu mati, sem veit á það að menn átta sig á því að þetta er ekki venjuleg umræða sem verður til lykta leidd með hefðbundnu meirihlutavaldi í þingsal, málið verður ekki klárað þannig vegna þessarar ríku kröfu almennings.

Ef ríkisstjórnarflokkarnir kjósa að ljúka þessum átakafarvegi og fara með málið í atkvæðagreiðslu munu raddirnar ekki þagna, það er svo einfalt. Það er nánast sama hvaða spurningar maður mundi spyrja, eðlilegrar, náttúrulegrar spurningar, eins og t.d.: Ert þú fylgjandi lýðræði? liggur mér við að segja, maður fær ekki miklu fleiri já en rúmlega 80%. Það er gríðarlega mikill fjöldi, það má eiginlega segja að það sé þjóðin öll þegar hlutfallið er orðið 80%. Og það er ánægjulegt að ríkisstjórnin skuli átta sig á því að ekki verður hægt að víkja sér undan þessari miklu kröfu.

Ég vænti þess að fleiri ráðherrar og forustumenn og hv. formaður utanríkismálanefndar muni taka undir þessa skýru sýn, þ.e. að beita sér fyrir því að það verði samkomulag meðal þingmanna um að koma þjóðinni að þeirri ákvörðun sem þarf að taka, eins og hæstv. heilbrigðisráðherra sagði fyrr í dag.

Afstaða Vinstri grænna hefur verið afstaða ómöguleikans í augum sumra, þ.e. sú afstaða að segja: Við erum þeirrar skoðunar á flokkslega vísu, þó að það séu margir stuðningsmenn og félagar í VG sem vilja ganga í Evrópusambandið, að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan sambandsins en innan þess, en um leið teljum við spurninguna svo aðkallandi og viðfangsefnið svo nærri okkur í tíma að við verðum að færa spurninguna til þjóðarinnar. Í mínum huga er þetta ekki ómöguleiki heldur er þetta nauðsynlegt. Það er mikilvægt að þjóðin fái þessa spurningu að glíma við vegna þess að þetta snýst ekki bara um réttinn til að segja já, þetta snýst ekki bara um réttinn til að fara inn, ekki bara um réttinn til þess að sjá hið draumkennda ástand þar sem Ísland er í Evrópusambandinu rætast, heldur snýst þetta líka um rétt einhverra til að segja nei. Þetta snýst um réttinn til að losna út úr þeirri stöðu í svona stórri spurningu að haft sé vit fyrir okkur.

Hv. þm. Heiða Kristín Helgadóttir talaði hér áðan um nútímann og að hún ætlaði að vera hér í sjötíu ár og ég áttaði mig á því að þá verð ég 120 ára, sem er dálítið — það er ákveðinn ómöguleiki í því. En ég er raunar viss um að þetta mál snýst um ákveðið skref inn í lýðræðislegri umræðu. Það er sterkari krafa á hverjum degi í heiminum öllum um aukna aðkomu almennings og aukið beint lýðræði. Þessi spurning, eins og margir hafa bent á, er afar góð til að fara þá leið og er afar gott dæmi um stóra spurningu sem verður ekki leidd til lykta með hefðbundinni nálgun fulltrúalýðræðisins. Það er eitthvað sem við verðum að lúta höfði gagnvart. Þetta snýst um auðmýkt okkar kjörinna fulltrúa, um auðmýkt okkar frammi fyrir því að við verðum að ná að koma okkur inn í öldina, ef svo má að orði komast, hvað varðar þessa stóru spurningu.

Þetta er ekki einfalt mál, þetta er stór spurning. (Forseti hringir.) Sumir vilja sjá skýrt já handan við hornið, sumir sjá skýrt nei. En langflestir vilja fá að vita um hvað málið snýst og taka upplýsta afstöðu.