143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[14:13]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mikið vildi ég hafa heyrt þessa ræðu á síðasta kjörtímabili þegar hv. þingmaður sat í ríkisstjórn og studdi allar þær aðgerðir sem hún stóð fyrir eða langflestar að minnsta kosti.

Ég velti fyrir mér, því að hér er talað mjög frjálslega um lýðræðið og þjóðaratkvæðagreiðslur, þegar við gengum í gegnum Icesave-málið. Það endaði í þjóðaratkvæðagreiðslu, tvisvar, ekki af því að hv. þingmaður hélt sömu ræðu og hún hélt í dag heldur vegna þess að fyrir rest ákvað forsetinn að grípa inn í og senda málið í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það er talað um auðmýkt, ég tek undir þau orð. Við eigum að sýna auðmýkt. Við skulum sjá hver framvindan verður í þessu máli áður en við afgreiðum það algjörlega út af borðinu.

Nú fullyrðir hv. þm. Ögmundur Jónasson að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafi lagt það til við Samfylkinguna að farið yrði í þjóðaratkvæðagreiðslu áður en ákvörðun var tekin um að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Er það rétt að hv. þingmaður hafi staðið frammi fyrir því? Ég spyr þá líka: Er hv. þingmaður sammála hv. þm. Ögmundi Jónassyni um að ekki eigi að spyrja þjóðina um það hvort halda eigi viðræðunum áfram heldur einfaldlega hvort þjóðin vilji yfir höfuð ganga í Evrópusambandið?