143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[14:23]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sjónarmið sem kom fram hjá hv. þm. Helga Hjörvar. Ástæðan er sú að við erum búin að standa hér og ræða þessa tillögu í nokkra daga. Í gær var beðið ítrekað um að ráðherrar ríkisstjórnarinnar, og ekki síst Sjálfstæðisflokksins, kæmu og væru viðstaddir umræðuna, þótt ekki væri nema einn, bara einn. En það hefur enginn þeirra sést í þingsölum undir þessari umræðu þá daga sem eru liðnir af henni.

Þetta er lítilsvirðing við þingið. Þetta er lítilsvirðing við þingmenn og þetta er lítilsvirðing við umræðuna. Menn geta ekki sagt við okkur að þetta eigi að útkljá í þingsal og í nefnd þegar þeir gera ekki svo lítið að láta sjá sig. Það er því ekki að undra að málið fari í hnút þegar þeir beinlínis neita að koma og ræða við okkur um það í þingsölum.

Ég geri þá kröfu um að við verðum ekki látin hanga hér eins og í gær, upp á von og óvon um að þeir kæmu inn í umræðuna einhvern tímann, (Forseti hringir.) heldur verði gert hlé á umræðunni og a.m.k. einn fulltrúi þessa ráðherrahóps kallaður hingað inn til að vera viðstaddur umræðuna.