143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[14:24]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég verð að taka undir með þeim sem töluðu áður. Það olli mér pínulitlum vonbrigðum að ég heyrði ekki betur en það ætti sér stað umræða, sem var um það bil að verða mjög áhugaverð, við hv. þingmann stjórnarmeirihlutans, hv. þm. Höskuld Þórhallsson, sem vildi fara út í spurninguna: Hvernig á spurningin að vera sem við ætlum að spyrja þjóðina? Það er góð spurning sem við eigum að spyrja og tala um og ég nefni hana kannski í ræðu um þetta mál frekar en í ræðu um fundarstjórn forseta. En það voru vonbrigði að sjá engan hæstv. ráðherra á svæðinu til að ræða neitt slíkt. Það er eiginlega ekkert nýtt og frekar dæmigert fyrir þessa umræðu að um leið og eitthvað kemur inn sem er áhugavert og verulega þess virði að ræða og virðist vera merki um samræðu um einhvers konar grundvöll eru engir hæstv. ráðherrar í sal. Það er heldur hvimleitt.