143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[14:26]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Við ræðum stórmál. Við ræðum mál sem er þvert á yfirlýst kosningaloforð hæstv. ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Ég fór upp undir liðnum um fundarstjórn í upphafi þingfundar í gær og óskaði eftir viðveru ráðherra Sjálfstæðisflokksins, enda er okkur nokkuð hugleikið hvernig þeir hafa getað skipt svo skjótt um skoðun og komið fram á þennan hátt við kjósendur sína.

Hæstv. forseti sem þá sat á stóli sagði að hann skyldi gera þær ráðstafanir að þeir vissu af þeim óskum okkar. Það hefur ekki sést til þeirra nema í óundirbúnum fyrirspurnatímum, einhverra þeirra, en það virðist vera sem enginn þeirra ætli að láta svo lítið að útskýra þennan viðsnúning á afstöðu sinni þvert á þau loforð sem þeir veittu. Ég tek undir þá kröfu að hingað mæti hæstv. ráðherrar.