143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[14:27]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram og raunar held ég að fullt tilefni sé til þess einfaldlega að spyrja forseta: Af hverju eru þessir ráðherrar ekki hér? Af hverju er það þannig? Ég geri ráð fyrir að hæstv. forseti hafi gert þeim ljóst að nærveru þeirra væri óskað.

Það eru verða hér ákveðnar vendingar í umræðu og urðu hér undir liðnum óundirbúnar fyrirspurnir í morgun og það er mikilvægt fyrir okkur að átta okkur á því hvert umræðan er að fara. Hæstv. heilbrigðisráðherra var nánast með pólitíska yfirlýsingu í ræðustól í morgun með tilvísun til afstöðu hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Það er þörf á því að við fáum tilfinningu fyrir því hvernig landið liggur pólitískt til að við sjáum í hvaða farveg tillögurnar eru líklegar til að fara inn í nefnd og hvernig umræðunni kemur til með að vinda fram.

Ég spyr hæstv. forseta: Hvar eru ráðherrar Sjálfstæðisflokksins? Ef einhver skýring er á því af hverju þeir eru ekki hér þá mundi ég gjarnan vilja heyra hana.