143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[14:31]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Hér fer fram efnisleg umræða um þingsályktunartillöguna um umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu, mál sem er borið upp af utanríkisráðherra sem hefur mestan partinn setið hér í salnum og hlýtt á umræðuna. Líkt og tíðkast í umræðum hér á Alþingi þá er það sá ráðherra sem ber ábyrgð á máli sem reynir að sitja eins og hægt er yfir umræðunum. Ég kannast ekki við að það hafi alltaf verið þannig síðan ég tók sæti á þingi að allir ráðherrar sitji hér til að hlýða á allar umræður í öllum málum, ég kannast ekki við það.

En af því að menn tala um að þeir vilji greiða fyrir þingstörfum og séu tilbúnir að tala minna ef ákveðnir ráðherrar sitji í salnum vil ég einfaldlega benda á að þegar umræðunni lýkur fer málið í þingnefnd þar sem talað verður um það á þeim vettvangi sem ætlast er til að gert verði á milli umræðna í þinginu. Ég vil bara hvetja menn til að líta til þess. Hér liggur fyrir dagskrá þingsins með 28 málum þannig að ég held að við höfum alveg nóg að sýsla hér í þinginu.