143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[14:34]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Við þurfum kannski ekki alla hæstv. ríkisstjórn hingað inn til að ræða þetta en það væri ágætt að hafa alla vega einn hæstv. ráðherra hér. Það skiptir ekki öllu máli hvort það yrði hæstv. forsætisráðherra eða hæstv. utanríkisráðherra með hliðsjón af því að önnur erfið umræðuefni eru í gangi, nefnilega makríldeilan og svona. En ef einhver hæstv. ráðherra væri á svæðinu væri það strax talsvert skárra. Þá væri maður alla vega ekki bara að blaðra út í vindinn sem er eiginlega það sem ég upplifi hér.

Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson kom hér með spurningu um það hvernig orða ætti spurninguna til þjóðarinnar ef farið yrði í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er efnisleg spurning, þetta er góð spurning og nauðsynleg. Persónulega finnst mér hún einföld. Persónulega finnst mér ekkert mál að svara henni. En nú erum við í fundarstjórn forseta. Við erum ekki að ræða við hæstv. ráðherra, við erum ekki að ræða við hv. þingmenn.

Við erum ekki að ræða málið vegna þess að þeir sem þurfa að vera hér, til að umræðan geti átt sér stað svo að gagn verði að, eru ekki á staðnum.