143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[14:38]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það var ekki ætlunin að fara í umræður um þetta hér en fyrst upp á það er boðið þakka ég hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir það. Ég virði að hún skuli koma hingað og verja ráðherra sína, það er ágætlega gert, en þetta er ekki eins og hvert annað mál.

Safnast hafa 50 þúsund undirskriftir, allir ráðherrarnir hafa tjáð sig um málið, meira og minna, í aðdraganda kosninga og sagt ákveðna hluti sem er verið að svíkja og þeir hafa ekki manndóm í sér til að koma síðan og ræða málið við okkur þingmenn. Það finnst mér alveg með ólíkindum. Það sem við óskum eftir er að þeir komi hingað sem þingmenn og ræði málið við okkur. Þeir svara fyrir málið í fjölmiðlum, gefa ádrátt um að mögulega verði gerðir einhverjir samningar, mögulega verði gerðar breytingar á málinu, taka undir að einhver málamiðlunartillaga sé góð o.s.frv., en þeir gera það ekki hér við okkur þingmenn. Þeir telja að það sé þeirra staður að gera það einhvers staðar í fjölmiðlum úti í bæ. (Forseti hringir.) Það er ekki boðlegt. Þess vegna segi ég að þetta sé fullkomið virðingarleysi gagnvart þinginu.