143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[14:47]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög góða ræðu og ég held að hann hafi hitt naglann á höfuðið. Við erum að fjalla um peningalega hagsmuni þröngra sérhagsmunahópa. Erum við að tala um hagsmuni sjávarútvegsins í heild sinni? Er eitthvað sem gefur í skyn að honum sé ógnað af því að ljúka aðildarviðræðunum? Er ekki Samherji evrópskt fyrirtæki? Gera þessi fyrirtæki ekki upp í evrum? Erum við að ógna íslensku sauðkindinni með því að ljúka aðildarviðræðunum við Evrópusambandið? Trúir einhver því að íslenskur sauðfjárbúskapur muni lenda í einhverjum vandræðum? Ég hef engar áhyggjur af því.

Erum við að ógna hagsmunum íslenskra neytenda með því að ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið? Erum við að ógna hagsmunum í náttúruvernd og loftslagsmálum með því að ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið? Erum við að ógna efnahagslegum hagsmunum Íslands með því að kanna möguleikana á því að taka upp stöðugri gjaldmiðil fyrir okkar litla og opna hagkerfi? Ég væri tilbúin til að hitta þá manneskju eða fá hingað í ræðustól þann þingmann sem væri tilbúinn til að telja okkur trú um það og færa rök fyrir því að einhverjum almennum hagsmunum sé ógnað með því að ljúka aðildarviðræðunum. Mér fannst mjög athyglisvert og ég er ánægð með að hv. þingmaður hafi einmitt komið inn á þessa þröngu peningalegu hagsmuni og mundi vilja heyra aðeins nánari útlistun þingmannsins á því.