143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[14:49]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Íslendingar hafa til að mynda alltaf þurft að kljást við verslunareinokun. Það er bara saga Íslendinga í gegnum árhundruðin. Ég held að það sé til dæmis verslunareinokun í landbúnaði sem við erum að etja við núna. Það liggur einfaldlega fyrir að við mundum fá tollfrelsi á innfluttum landbúnaðarvörum ef við gengjum í Evrópusambandið. Reyndar rekur skýrsla Hagfræðistofnunar það ágætlega að okkur væri algerlega í sjálfsvald sett að gera landbúnaðinum sjálfum — við gætum bætt honum það með styrkveitingum en einokunin í verslun með landbúnaðarvörur mundi líða undir lok. Þeir sem njóta góðs af samkeppnisleysi í íslenskum landbúnaði núna eru ekki áhugasamir um að ganga í Evrópusambandið. Mér finnst afskaplega mikilvægt að neytendur, almenningur, fari að sjá umræðuna í þessu ljósi.

Síðan eru það þeir sem selja fiskinn í erlendum gjaldmiðli og fá tekjur í evrum. Þetta er einnig gömul saga og ný í íslensku efnahagslífi. Og þeir borga í krónum. Þeir njóta góðs af því, sérstaklega ef hægt er að stjórna genginu, sem er að verða hægt, dálítið mikið, í íslensku samfélagi aftur. Þeir njóta góðs af því að Íslendingar fari ekki að taka upp stöðugan gjaldmiðil, sem mundi nýtast heimilum og öðrum atvinnugreinum mjög vel, vegna þess að að mörgu leyti er krónan, eins og við höfum umgengist hana, sérsniðin fyrir sérhagsmuni í sjávarútvegi. Mér finnst afskaplega mikilvægt að almenningur átti sig á því.