143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[14:54]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst að í þessari umræðu allri séu stjórnarliðar og ráðherrar farnir að vera frekar órólegir vegna þess að þeir sjá að samkvæmt skoðanakönnunum vilja æ fleiri ljúka þessum viðræðum og fá að sjá hvað er í boði, menn eru miklu nær þeirri línu en þeir voru áður. Mig undrar því ekki að ráðherrar séu farnir að gefa út ýmsar yfirlýsingar um að tillaga þeirra muni breytast og verði endurskoðuð.

Mig langar að heyra viðhorf hv. þingmanns sem talsmanns þess að við skoðum hvað er í boði og er fylgjandi því að ganga í Evrópusambandið, hvort hann sé ekki bara býsna glaður því að nú hefur þjóðin færst miklu nær hans flokki. Samfylkingin hefur kannski ekki fengið mikið „backup“ í skoðanakönnunum, en það hefur flokkur hv. þingmanns fengið. Ég ráðlegg stjórnarliðum í þeim efnum ef þeir vilja halda einhverju af sínu fólki að ræða þetta á þeim nótum að ekki sé allt gull sem glóir í Evrópusambandinu.

Ég er líka mjög andsnúin öllum sérhagsmunum og gef lítið fyrir slíkt á Íslandi og annars staðar. En telur hv. þingmaður að ef við göngum í Evrópusambandið séum við laus við alla sérhagsmuni? Eru ekki sérhagsmunir grasserandi alls staðar í Evrópusambandinu, bara eins og við þurfum að búa við hér gagnvart ýmsum aðilum? Mér finnst menn oft tala — hvað á ég að segja, ekki kannski í einfeldni en með einhvern glampa í augum í þessu máli, að það verði bara þvílík himnasæla hér ef við göngum í Evrópusambandið.