143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[15:00]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi sáttina og framhald málsins hér. Já, við í þingflokki Bjartrar framtíðar höfum lýst því yfir að við teljum að það ætti að vera hægt að ná sáttum í þessu máli. Við höfum jafnframt sagt að stefna okkar er alveg skýr í þessu. Við viljum einfaldlega klára samninginn og að þjóðin kjósi síðan um samninginn.

En að því sögðu viljum við líka horfast í augu við að það eru aðrar skoðanir hér og við teljum að það sé til mikils að vinna að reyna að finna einhverja sátt og einhvern lýðræðislegan og uppbyggilegan farveg fyrir þetta erfiða deilumál.

En varðandi síðan spurningar um gjaldmiðilinn: Hvernig tókst gjaldmiðlinum að bjarga okkur frá hörmungum (LRM: Hjálpa okkur.) já, eða hjálpa okkur? Í fyrsta lagi er íslenska gjaldmiðilskrísan óleyst. Við erum í höftum og við erum með óraunverulegt gengi. Við erum með lög í landinu sem banna fólki að fara með peninga út úr landinu. Við höfum frestað gjaldmiðilshruninu. Ef verslað yrði með krónuna og gengið miðað við framboð og eftirspurn á frjálsum markaði þá mundu hörmungar dynja hér á íslensku efnahagslífi og heimilum og fyrirtækjum. Þannig er nú staðan með gjaldmiðilinn, hann hefur hjálpað okkur upp að þessu marki en við þurftum að setja lög um hann. (Forseti hringir.) En svo hjálpar gjaldmiðillinn á sama hátt og hann gerir alltaf með því að færa peninga frá almenningi til fárra með því að minnka kaupmátt (Forseti hringir.) og lækka tekjur almennings. Það gerir hann og það er mesti blekkingarleikur í íslensku samfélagi að almenningur virðist einhvern veginn eiga erfitt með að ná því.