143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

makrílviðræðurnar, munnleg skýrsla sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

[15:11]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið í fréttum gengu Evrópusambandið, Noregur og Færeyjar frá samkomulagi sín á milli í gær um stjórn makrílveiða næstu fimm árin. Þessi þróun mála er að nokkru leyti óvænt í ljósi þess að fyrir rúmri viku slitnaði upp úr samningaviðræðum strandríkjanna fjögurra í Edinborg. Vitað var þó að ESB og Noregur mundu þá halda áfram tvíhliða viðræðum um fiskveiðisamninga, þar á meðal makríl.

Síðastliðið sumar þegar Ísland og Færeyjar sátu undir stöðugum hótunum af hálfu Evrópusambandsins um ólögmætar viðskiptaþvinganir átti ég frumkvæði að því að deiluaðilar hittust enn á ný. Var sá fundur haldinn í Reykjavík snemma í september. Á þeim fundi kom fram að Noregur væri ekki í færum til samninga vegna þess að kosningar voru þá á næsta leiti og reyndar var það staðan þar til ný ríkisstjórn hafði verið mynduð þar í október. Eftir fundinn í Reykjavík hófust umleitanir milli Íslands og ESB sem lyktaði með því snemma í október að samkomulag varð um að Ísland skyldi fá 11,9% hlutdeild en þyrfti þó ekki að minnka veiðarnar 2014 og 2015 frá kvóta ársins 2013, þ.e. rúm 123 þús. tonn. Gengið var út frá þeirri forsendu að veiðarnar byggðust á vísindaráðgjöf. Ég lýsti vissum áhyggjum í viðræðum við sjávarútvegsstjóra ESB, Mariu Damanaki, af því að Noregur væri ekki aðili að þessu samkomulagi, en hún fullvissaði mig og ekki bara einu sinni um að ESB mundi tryggja framgang samningsins gagnvart Noregi.

Það kom hins vegar fljótlega í ljós eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Noregi að Norðmenn voru ekki tilbúnir að fallast á þessa hlutdeild til handa Íslandi og til viðbótar settu þeir fljótlega fram kröfu um 1.300 þús. tonna heildarveiði, þ.e. rúmlega 400 þús. tonn umfram ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins, sem mundi örugglega þýða veiði vel yfir 1.400 þús. tonn þegar Grænland er tekið með í reikninginn og veiðar Rússa á úthafinu.

Um þetta tvennt hefur staðið styrr á samningafundum í haust og vetur. Þar við bættist að á fundi í byrjun febrúar kom fram að Norðmenn ynnu að því bak við tjöldin að fá Færeyinga til að skuldbinda sig til að veita íslenskum skipum ekki aðgang að færeyskri lögsögu til makrílveiða. Þegar það varð opinbert brugðumst við hart við, samningamenn fordæmdu þessi vinnubrögð, sendiherra Noregs var kallaður í utanríkisráðuneytið og bæði forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra mótmæltu við forsætisráðherra Noregs.

Sjávarútvegsráðherra átti einnig símtal við bæði sjávarútvegsstjóra ESB og sjávarútvegsráðherra Færeyja þar sem hann lýsti því yfir að Ísland tæki ekki þátt í viðræðum ef slíkt ætti að ræða við samningaborðið.

Á fundinum í Edinborg í síðustu viku kom svo enn ein hliðarkrafan frá Noregi sem sneri nú að Grænlandi. Norðmenn gerðu það að skilyrði fyrir samkomulagi að ekkert ríki sem ætti aðild að samningnum heimilaði sínum skipum veiðar í lögsögum ríkja sem ekki væru aðilar að samkomulaginu. Þannig varð smám saman ljóst að Noregur ætlaði ekki að semja um þá hlutdeild sem við og ESB höfðum komið okkur saman um. Það lá fyrir að fundurinn í Edinborg væri úrslitatilraun strandríkjanna til að ná samkomulagi sem tæki gildi í ár. Fundinum stýrði og sleit aðalsamningamaður ESB með þeim orðum að nú væri fullreynt og næst yrðu aðilar að taka til við samningsgerð fyrir 2015. Það er því alrangt sem haldið hefur verið fram að íslenska sendinefndin hafi slitið viðræðum eða gengið af fundi. Þetta kemur jafnframt skýrt fram í fréttatilkynningu sjávarútvegsstjóra ESB daginn eftir þar sem hún harmaði að ekki hefði náðst samkomulag og sagði beinlínis að þar hefði verið um að kenna stífni Norðmanna.

Í framhaldi af fundarslitum kom jafnframt fram bæði í opinberum fréttatilkynningum og fjölmiðlaumræðu að við tækju tvíhliða viðræður ESB og Noregs, og færeyski ráðherrann upplýsti að hann ætlaði Færeyjum 23% af heildaraflanum fyrst ekki hefðu náðst samningar.

Á þessum tíma var okkur, íslensku samninganefndinni, endanlega ljóst að ekki væri grundvöllur til samkomulags á grunni sjálfbærra veiða. Í framhaldi fundarins í Edinborg bárust af því óstaðfestar fréttir að ásamt tvíhliða fundi Norðmanna og ESB yrði þríhliða fundur með Færeyingum. Það var ljóst síðustu vikurnar að þessi ríki ættu möguleika á að ná þríhliða samningi og gætu fallist sín á milli á að gera samning sem ekki byggði á ráðgjöf.

Í raun var það eitt af okkar stóru viðfangsefnum í viðræðunum að reyna að knýja fram fjögurra ríkja samkomulag á grunni vísindalegrar ráðgjafar. Það er því ofsagt að komið hafi verið aftan að okkur með þriggja ríkja samkomulagi en vissulega valda vinnubrögðin vonbrigðum.

Atburðarás gærdagsins er á þá leið að sendiráð okkar í Brussel upplýsti okkur í gærmorgun um óstaðfestar fréttir frá fundi sjávarútvegsvinnuhóps ráðherraráðsins af því að til stæði að ganga frá þríhliða samningi seinna um daginn. Fjölmiðlarfregnir voru hins vegar mjög misvísandi fram eftir degi og það var fyrst í gærkvöldi að staðfest var að gengið hefði verið frá þríhliða samkomulagi.

Okkur barst svo samningurinn snemma í morgun. Samningurinn er til fimm ára, hann kveður á um að aðilarnir þrír skipti með sér um það bil 1.090 þús. tonnum en ganga út frá heildarafla upp á 1.240 þús. tonn þar sem öðrum fiskveiðiríkjum, þar á meðal Íslandi, eru ætluð 15,6% af heildinni. Það verður að taka það fram að Rússar eru þarna meðtaldir.

Hér vil ég hnykkja á að veiðin verður óhjákvæmilega mun meiri þegar horft er til veiða Grænlands og Rússlands og því augljóslega um mikla ofveiði að ræða miðað við vísindaráðgjöf. Það eru því veruleg vonbrigði að Evrópusambandið hafi vikið frá þeim samningsgrunni sem við höfðum og byggði á sjálfbærum veiðum. Hættan á ofveiði er mikil, ekki er horft til markaðsaðstæðna og ekki er að fullu tekið tillit til þeirrar staðreyndar að makríll hefst nú við í fleiri lögsögum en þessara þriggja ríkja.

Í samningnum kemur fram og er það haft eftir Damanaki að Ísland geti gerst aðili að þessu samkomulagi. Hún veit samt að ekki tókst fjögurra ríkja samkomulag á þeim grunni sem hér er lagt upp með og það hefur ekki breyst að við leggjum áherslu á nýtingu stofnsins á grunni vísindalegrar ráðgjafar.

Nú tekur við að við veltum því upp hvernig við ætlum að ákvarða leyfilegan heildarafla íslenskra skipa. Það vil ég gera að vel athuguðu máli og mun ekki taka þá ákvörðun í flýti.