143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

makrílviðræðurnar, munnleg skýrsla sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

[15:23]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég tel að þessi tíðindi frá því í gærkvöldi og í morgun séu alvarleg og að komin sé upp vandasöm staða fyrir Ísland. Þetta er í fyrsta lagi alvarlegt út frá hagsmunum okkar í makríldeilunni og hlutdeild okkar og framtíðarhagsmunum í þeim efnum, það er breytt vígstaða í málinu.

Þetta er í öðru lagi pólitískt ný staða, pólitísk staða sem Ísland þarf að vinna úr þar sem komin eru upp flókin samskipti við samstarfs- og vinaþjóðir.

Þetta er í þriðja lagi mjög alvarlegt vegna þess, eins og fram kom í síðustu ræðu, að þetta er væntanlega ávísun á bullandi ofveiði á makríl næstu árin sem er um það bil það síðasta sem þjónar hagsmunum Íslands, bæði sem ábyrgrar fiskveiðiþjóðar en líka vegna þess að líffræðilega er mikilvægt fyrir okkur að stofninn sé stór. Ég vil segja fyrir mitt leyti að ekkert í framgöngu Norðmanna kemur mér hér á óvart. Það er búið að liggja býsna lengi fyrir að þeir væru okkar erfiðasti andstæðingur í þessu máli, öfugt við það sem stundum var haldið fram á síðasta kjörtímabili.

Staðreyndin er sú að veiðar Íslendinga á makríl hafa pirrað Norðmenn alveg óendanlega frá byrjun, það veit sá sem hér stendur allt um, því að ég tók nokkur símtöl við sjávarútvegsráðherra Noregs á útmánuðum 2009 eftir að við Íslendingar gáfum í fyrsta sinn út einhliða kvóta. Þetta er meira undrunarefni hvað varðar Færeyjar og Evrópusambandið í ljósi samskiptanna við þá aðila báða, þ.e. gamalgróinna tengsla Íslands og Færeyja og þess að Evrópusambandið og Ísland voru frá og með vori og sumri 2012 þeir aðilar sem voru helst að reyna að koma þessu máli áfram, voru að reyna að ná samningum og voru að reyna að sýna sveigjanleika. Það var staðfest á tvíhliða fundum sem voru hér á Íslandi samhliða fiskveiðiráðstefnu sjávarútvegsráðherra Norður-Atlantshafsins. Það var staðfest á sérstökum aukafundi í London í septemberbyrjun 2012. Þá þegar lá fyrir að vandamálið lá fyrst og fremst í Noregi. Menn báru við kosningum og að þeir væru ekki í stöðu til að miðla málum fyrr en þeir hefðu fengið nýtt umboð. Færeyjar voru þar, og lengi vel í deilunni, meira utan sviga og sögðust fyrst og fremst vilja fá meiri makríl og punktur.

Þetta þróast síðan þannig, eins og kom ágætlega fram í máli ráðherra áðan, að Evrópusambandið heldur áfram, í samskiptum við Ísland, að koma málinu á rekspöl. Í staðinn fyrir að vera að tala um eins stafs tölu fyrir Ísland eru þeir farnir að opna á það sem hér var nefnt, þ.e. 12%. Vissulega var maður þá farinn að binda vonir við að flötur væri á því að ná samningum í málinu.

Það sem gerist síðan frá og með því að upp úr slitnar, eða að menn ljúka viðræðum í Edinborg í síðustu viku, er hins vegar umhugsunarefni. Ég verð að taka þar undir með síðasta ræðumanni að ég er reyndar mjög hugsi yfir því. Var hægt að gera einhvern veginn betur en að sitja uppi með það að fá svo bara fréttir af því að hinir þrír væru búnir að læsa sig saman? Íslendingar fóru heim en formaður færeysku sendinefndarinnar varð eftir. Þá þegar hefði það mátt vera ljóst að eitthvað görótt gæti verið í vændum.

Ég tel líka að yfirlýsing hæstv. ráðherra, á heimasíðu hans 5. mars sl., alla vega séð í ljósi þess sem síðar gerðist, orki tvímælis. Þar er því slegið föstu að nú sé fullreynt um að ná samkomulagi. Haft er orðrétt eftir ráðherra: „Það er ljóst að viðræðum um stjórn makrílveiða fyrir 2014 er nú lokið.“ Hafandi þær yfirlýsingar í höndunum gátu þeir auðvitað tekið því rólega úti í Edinborg og haldið áfram að læsa samkomulaginu saman. Ég velti því fyrir mér hvort ekki hafi verið hægt með einhverjum hætti að brjótast inn í þetta mál á þeim dögum sem til stefnu voru.

Norðmenn eru hér að gera það sem þeir hafa lengi ætlað sér að gera, og það er að heppnast hjá þeim, að halda Íslandi út úr þessu eins og mögulegt er, hlutdeild þeirra eins lágri og mögulegt er ef nokkurri, en fyrst og fremst að tryggja að Íslendingar hafi ekki aðgang að öðrum lögsögum en sinni eigin. Það gera þeir í von um að vesturgöngurnar á makríl verði stopular og væntanlega með það í huga, eins og nú kemur á daginn, að veiða stofninn niður og draga þar með úr líkunum á því að hann gangi hingað vestur. Þetta er mjög gróft. Þetta er fullkomlega óábyrgt líffræðilega og þetta er til skammar fyrir þjóð sem telur sig vera ábyrga í þessum efnum, fyrir nú utan náungakærleikann sem í þessu birtist.

Evrópusambandið gengisfellir sjálft sig líka með því að taka þátt í samkomulagi sem er ávísun á upp undir hálfa milljón tonna í veiði umfram ráðgjöf því að það er það sem stefnir í hér, þ.e. að veidd verði um hálf milljón tonna af makríl á næstu vertíð umfram ráðgjöf með tilheyrandi afleiðingum fyrir markaðinn o.s.frv. Það er afar leiðinleg staða að fást við fyrir Ísland og upp koma mörg vandasöm efnisleg og taktísk álitamál hvað varðar það hvernig við eigum að stíga næstu skref.

Ég vil segja um Færeyinga að við verðum að horfast í augu við að þeir eru að landa gríðarlega góðum samningi fyrir sinn hatt, 12,6% og 30–35% aðgangur að lögsögum bæði Noregs og Evrópusambandsins er gríðarlega góður samningur fyrir Færeyjar. Þeir voru með 5% af makrílnum í gamla samningnum. Þeir setjast niður á morgun með Evrópusambandinu og ætla sér örugglega þar að reyna að fá þá skrautfjöður í hattinn að viðskiptaþvinganirnar verði felldar niður, hugsanlega með því að gefa eitthvað eftir í síld á móti. Segja má að það sé gullin þrenna fyrir Færeyinga ef það gengi upp. Auðvitað getum við glaðst fyrir þeirra hönd en hver verður að passa upp á sína hagsmuni í þessum efnum og sá sem hér stendur, sem um áratugi hefur stutt það að við Íslendingar héldum þeim réttindum til haga sem Færeyingar fengu hér með útfærslu landhelginnar og þegar þeir lentu í sínum efnahagsþrengingum — mig tekur það nú nokkuð sárt að Færeyingar skuli þá ekki einu sinni hafa aðvarað okkur um hvað þeir ætluðu að fara að gera í þessum efnum.

Ég tel að við hljótum að krefja Evrópusambandið og Færeyjar skýringa. Við Norðmenn þurfum við ekkert annað að gera en láta þá ósköp einfaldlega sjá og heyra og skilja hversu misboðið okkur er við þessa framkomu þeirra. En það eru Evrópusambandið og Færeyjar sem ættu að skýra fyrir okkur hvernig á því stendur að Ísland er skilið svona eftir þegar menn stóðu frá samningsborðinu og það er skjalfest og viðurkennt að það voru Norðmenn sem strandaði á. Þá er skúrkurinn verðlaunaður með því að nokkrum dögum seinna eru gerðir við hann samningar. En auðvitað verðum við líka að horfast í augu við það að Noregur hefur teflt þetta feiknarlega vel og af mikilli hörku og þar á meðal og ekki síst á kostnað Íslands. Þeir „stolluðu“ viðræðum við Evrópusambandið, byggðu upp þrýsting á það Evrópusambandsmegin frá og náðu svo að leysa þetta í einum pakka, þ.e. að fá sitt fram í makrílsamningunum og þá voru þeir tilbúnir til að skrifa undir við Evrópusambandið.

Einhvern veginn hefur okkur ekki tekist að tefla þetta jafn vel en staða okkar er að sjálfsögðu önnur að ýmsu leyti og veikari. En þó skulum við ekki gleyma því að við höfum líka ýmisleg vopn í okkar búri. Þessar þjóðir eru með samninga við okkur um verðmæt réttindi hér og þau skipta þær máli, bæði Noreg og Færeyjar. Vestan við okkur er Grænland og það getur líka skipt miklu máli hvernig Ísland og Grænland vinna sameiginlega úr þeirri stöðu sem nú er komin upp þó að staða okkar samningatæknilega séð hafi auðvitað verið mjög ólík, þ.e. við orðin viðurkennd sem strandríki í hópnum en Grænlendingar enn með veiðar á tilraunastigi.

Það er rétt að menn hafi í huga að þessi framkoma er sýnd einu af viðurkenndum strandríkjum í hópnum. Það er ekki lengur þannig að Ísland sé eitthvert utangarðsland í þessum félagsskap. Við vorum tekin inn 2010 sem strandríki og við höfum þar af leiðandi öll réttindi sem Alþjóðahafréttarsáttmálinn færir okkur sem slíkt, sem eitt af strandríkjunum í hópnum. Það er í því ljósi auðvitað miklu ósvífnara að ganga frá samkomulagi til fimm ára án þess að láta okkur svo mikið sem vita á meðan það er í fæðingu. En auðvitað þarf að taka fast á þessu sem og tvíhliða samskiptunum við Færeyjar. Þetta er því miður dæmt til að koma upp í þeim. Samningum Íslands og Færeyja, um sameiginleg samskipti á sviði sjávarútvegsmála fyrir þetta ár, er ólokið. Þær viðræður stóðu fyrir dyrum og standa væntanlega enn í næstu viku og það verður auðvitað allt öðruvísi fundur en verið hefur undanfarin ár. Það hljóta allir menn að sjá.

Vonandi er það ekki svo að Færeyingar hafi kostað því til að skuldbinda sig til að útiloka okkur í meira eða minna mæli eða alveg frá sinni lögsögu. Það væru auðvitað veruleg tíðindi, ekki bara þá í makríl heldur vegna síldar og kolmunna líka. Ég trúi því nú ekki fyrr en ég tek á því að það hafi verið. Það mundi strax breyta stöðunni verulega ef Ísland hefði áfram umtalsverðan aðgang að bæði færeysku og grænlensku lögsögunni. Nú verðum við bara að veðja á góðan sjávarhita, mikla átu og myndarlega vesturgöngu næstu árin. Þá munum við sýna bæði Norðmönnum og öðrum að við eigum réttmæta kröfu til myndarlegrar hlutdeildar í þessum stofni.