143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

makrílviðræðurnar, munnleg skýrsla sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

[15:53]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það verður að segjast að þessi niðurstaða um þríhliða samning Norðmanna, Færeyinga og Evrópusambandsins er mikil vonbrigði og kemur okkur öllum mjög á óvart, eins og við heyrum á umræðunni. Ég taldi rétt að við Íslendingar værum á þeirri braut að krefjast þess að samningur sem þessi byggði á sjálfbærum veiðum og ég held að við séum flestöll hér í þessum sal sammála um það.

En í þann samning sem nú liggur á borðinu, sem okkur er haldið utan við, er innbyggt að um verður að ræða ofveiði á makríl enda er samningurinn sjálfur langt umfram þá veiðiráðgjöf sem fyrir liggur. Þetta er óábyrg afstaða þeirra þjóða sem að þessum samningi standa og við þurfum að krefjast skýringa á því hvers vegna menn telja nú rétt að semja á þessum nótum þegar fyrir lá, eins og komið hefur fram í umræðum, fyrir nokkrum dögum að það væru Norðmenn sjálfir sem stæðu utan þess hóps. Uppi voru okkar sjónarmið um að við skyldum nálgast samkomulag, þ.e. Ísland, Færeyjar og Evrópusambandið, á grundvelli sjálfbærra veiða. Ég taldi að skilningur væri á því bæði hjá Evrópusambandinu og Færeyingum að það væri leiðin frekar en sú leið sem Norðmenn hafa nú náð fram.

Ég hef jafnframt miklar áhyggjur af því hvernig málinu muni vinda fram og afleiðingunum á samskipti okkar við þessar þjóðir. Sem formaður Vestnorræna ráðsins hef ég sérstakar áhyggjur af afleiðingunum hvað varðar samskipti okkar við Færeyinga. Auðvitað skilur maður að það sé gleði í Færeyjum yfir því að hafa náð þetta miklu fram í þessum samningi en engu að síður verðum við að krefja þá svara um framhaldið og koma óánægju okkar skýrt á framfæri.

Ég mun í lok mánaðarins fara til Færeyja á fund forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins með Evrópusambandinu þar sem til stendur að ræða um makríl og síld, heimsækja færeyskar fiskvinnslur og ræða þessi mál. Ég verð að segja að sá fundur verður allt öðruvísi en ég hafði búið mig undir og ég þarf greinilega að skrifa ræðurnar mínar upp á nýtt í ljósi þessa máls. Auðvitað skiptir mestu máli nú fyrir sjávarútvegsráðherra okkar að halda vel á framhaldinu. Nú bíða stórar ákvarðanir um það hversu mikið við ætlum að veiða.

Ég ítreka mikilvægi þess að við séum samkvæm sjálfum okkur, að við víkjum ekki frá því grundvallarsjónarmiði okkar í framtíðinni að við eigum að hafa sjálfbærar veiðar að leiðarljósi þegar við veiðum úr sameiginlegum stofnum. Auðvitað þurfum við að eiga samskipti við aðrar þjóðir til að koma málflutningi okkar á framfæri og til að sannfæra aðra um að okkar leið sé sú skynsamlegasta. Þessi kúvending, sérstaklega Evrópusambandsins, fær mann þó til að hugleiða hvað hafi átt sér stað frá því að talsmaður Evrópusambandsins í þessu máli gaf út þá yfirlýsingu að Norðmenn stæðu einir utan gátta í þessum samningaviðræðum. Hvað olli þeirri kúvendingu?

Hæstv. forseti. Ég þakka að lokum ráðherranum fyrir að bregðast snöggt við og koma hingað og ræða þetta mikilvæga mál. Ég tel alveg ljóst að við þurfum að halda vel á spilunum og að í þessu máli stöndum við öll saman.