143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

makrílviðræðurnar, munnleg skýrsla sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

[16:01]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég get bara aftur tekið undir það sem þegar hefur verið sagt. Nú hefur aðeins verið talað um þetta í sambandi við aðildarviðræður okkar við Evrópusambandið en ég vil bara taka það fram, án þess að ég vilji endilega blanda því of mikið saman akkúrat á þessum tímapunkti, að ef við værum í Evrópusambandinu liti þetta mál allt öðruvísi út og hefði alltaf litið allt öðruvísi út vegna þess að þá værum við væntanlega þess megin við borðið.

Það eru ósambærilegar aðstæður og ekki hægt að bera saman á þessum tímapunkti.

Enn fremur vil ég vekja athygli á því að við ættum kannski helst að hafa í huga að það er Noregur sem er helsti deiluaðilinn við okkur. Við komumst ekki hjá því að álykta sem svo. Sérstaklega verður forvitnilegt og fróðlegt að sjá hvernig muni ganga í samskiptum okkar við Færeyjar í þessu en það er nokkuð sem er kannski erfitt að segja nokkurn skapaðan hlut um akkúrat á þessari stundu.

Hvað varðar ásakanir eins og þær að hér hafi verið sofið á verðinum — ég skal viðurkenna að það getur litið þannig út núna en ég þori ekki að fullyrða neitt slíkt fyrr en öll kurl eru komin til grafar. Mér finnst mikilvægt að þótt við tökumst á um önnur utanríkismál verðum við að standa saman í þessu málefni eftir fremstu getu.

Þótt ég sjái enga mótsögn milli þess að íslenska sendinefndin hafi slitið viðræðum og gengið af fundi annars vegar og hins vegar að kenna Norðmönnum og stífni þeirra um er það umræða sem við tökum á seinni stigum málsins þegar við höfum aðeins rætt þetta betur, bæði hér á þingfundi og utan.

Ég legg til að hvað sem við gerum beitum við okkur fyrst og fremst gagnvart okkar mennsku deiluaðilum og tek undir orð hv. þm. Birgis Ármannssonar og hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur um að við höldum okkar prinsipp um sjálfbærar veiðar.

Nú er svo komið að það er greinilega meira en að nefna það og ég býð engar lausnir í þeim efnum að svo stöddu. Hvað sem við gerum skulum við gera það á réttum forsendum.