143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:21]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta svar. Þetta er sú stefna sem rekin er og ég tók eftir því að hér ókyrrðust nokkrir þingmenn í salnum þegar hann talaði um þessa einangrunarstefnu og Framsóknarflokkinn í þeim efnum. Það verður gaman að heyra í andsvari á eftir hvað framsóknarmenn segja við þessu og hvernig þeir ætla að bera það til baka að þetta sé rétt.

Í seinna andsvari langar mig að spyrja hv. þingmann út í afstöðu nokkurra þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem gegna allir um þessar mundir ráðherrastöðu. Mjög oft hafa verið spiluð fyrir landsmenn þau loforð sem sjálfstæðismenn, núverandi hæstv. ráðherrar, settu fram fyrir kosningar þar sem því var lofað að flokkurinn mundi beita sér fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda ætti áfram eða ekki.

Ég hef sagt að þetta sé sú mesta samstaða sem hægt sé að ná á Alþingi í raun og veru um þetta mál, þessi tillaga (Forseti hringir.) um þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda eigi áfram. Hver eru sjónarmið varðandi það sem sjálfstæðismenn sögðu hér áður: Orð skulu standa o.s.frv.?