143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:23]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er ansi stuttur tími sem þingmönnum gefst hér til að ræða þessa tillögu. Ég hefði gjarnan viljað heyra meira af sjónarmiðum hv. þm. Vilhjálms Bjarnasonar enda er hann sérfræðingur í fjármálamörkuðum. Hann veit ýmislegt um atvinnuhætti og er einstaklega sögufróður.

Við hv. þingmaður erum sammála um að við viljum fá að sjá samning. Hann fór ágætlega yfir það að Evrópusambandið er svo margt. Það er friðarbandalag. Það er samband þjóða sem tilheyra Evrópuálfu og eiga ýmislegt sameiginlegt í menningarlegu tilliti þó að þessi 28 ríki séu auðvitað mjög ólík innbyrðis og eigi mjög ólíka sögu og menningu. Það eru atvinnuhagsmunir sem felast í því að fara í Evrópusambandið, það eru hagsmunir varðandi gjaldmiðilsmál og aðild okkar að Evrópusambandinu tengist mjög fullveldishugtakinu. Þá getum við deilt um það hvort fullveldi okkar sé betur borgið utan sambandsins, sem aðilar að EES, eða hvort það sé einmitt leið til að styrkja fullveldið að vera innan Evrópusambandsins og hafa þar af leiðandi meiri áhrif á það regluverk sem við ætlum að innleiða hér á landi.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann af því að hann hefur tekið þá afstöðu, ég veit að það gerðist ekki við framlagningu þessarar tillögu, að telja mikilvægt að við ljúkum aðildarviðræðunum: Hverjir eru mikilvægustu hagsmunir Íslands í því að við náum að ljúka þessum aðildarsamningi?