143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:31]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sáttur við svarið. Ég tel að ekki sé hægt að segja, eftir þessa ræðu hv. þingmanns, að þetta hafi verið sleggjudómur hjá honum, hann færði sterk, söguleg rök fyrir máli sínu.

Mig langar að nota þær örfáu sekúndur sem ég hef til að spyrja hv. þingmann, sem er ásamt mér í hv. utanríkismálanefnd, hvernig hann sjái fyrir sér meðferð þessa máls þegar það kemur til nefndarinnar. Þetta er flókið mál, vandasamt. Telur hann til dæmis ekki eðlilegt að það verði sent út til umsagnar eins og önnur slík mál þannig að þeir sem gerst til þekkja, og við þurfum að fá álit frá, hafi nægan tíma til að setja álit sitt fram með vönduðum hætti? Ég er þeirrar skoðunar, ég tel að menn eigi ekki að hrapa að neinu varðandi þetta.

Ég spyr líka: Telur hann ekki algjörlega nauðsynlegt að áður en umfjöllun nefndarinnar lýkur höfum við fyrir okkur skýrslu Alþjóðamálastofnunar sem tekur líka á hinum hagrænu þáttum sem ekki er að finna í skýrslunni sem við höfum rætt hér áður en umræðan um þessa tillögu hófst?