143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:45]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki að taka undir þau sjónarmið sem komið hafa fram frá ríkisstjórninni um að ómögulegt sé fyrir ríkisstjórn sem er andsnúin aðild að Evrópusambandinu að vera í viðræðum við Evrópusambandið. Við í VG erum hins vegar að segja þetta: Þessi sjónarmið eru uppi af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Við erum ekki endilega sammála þeim, en við erum reiðubúin til að mæta og koma til móts við þau sjónarmið ríkisstjórnarinnar og þess vegna höfum við lagt til þessa leið. Við teljum að sú leið sem við höfum lagt til mæti sjónarmiðum ríkisstjórnarflokkanna, þó að við séum ekki sammála þeim, um leið og tryggð er aðkoma þjóðarinnar að ákvörðun um næstu skref og framhaldið inni á þessu kjörtímabili.

Eins og ég sagði er þetta ekki endilega sú leið sem við mundum vilja fara ef við réðum ein, en við horfumst í augu við hinn pólitíska veruleika í málinu. Það er ekki endilega alltaf og ekki endilega algengt að stjórnarandstöðuflokkar geri það og rétti ríkisstjórn slíka sáttarhönd. Við vonumst auðvitað til þess að ríkisstjórnin hlusti á það sem við höfum fram að færa í umræðunni og sé að minnsta kosti reiðubúin til að fara í alvarlega umræðu við okkur um það á vettvangi utanríkismálanefndar.

Varðandi atvinnustefnuna og ef ekki er skipt um gjaldmiðil þá ég hef skoðað mjög ítarlega skýrslu Seðlabankans um valkosti í gjaldmiðilsmálum. Ég er sammála þeirri meginniðurstöðu sem þar er dregin upp, að valkostirnir séu í meginatriðum tveir, þ.e. áfram króna og þá væntanlega og hugsanlega í einhverjum höftum enn um sinn, eða upptaka evru. Ég get alveg sagt að mér finnst upptaka evru spennandi kostur en þeirri leið fylgir sá böggull að við yrðum að ganga í Evrópusambandið og ég er ekki kominn á þann stað í þeirri umræðu. Ég tel að það verði að skoða mjög heildstætt áfram (Forseti hringir.) hvernig við ætlum að byggja upp gjaldmiðilsstefnu okkar með krónu (Forseti hringir.) og hvernig við getum leyst hana úr höftum. Ef það reynist ómögulegt á næstu (Forseti hringir.) árum, ég tala nú ekki um áratugum, held (Forseti hringir.) ég að við verðum að fara að hugsa okkur vandlega um.