143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:48]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér er ljós sú afstaða þingmanna Samfylkingarinnar að þeir vilja ljúka aðildarviðræðunum og kannski til vara þjóðaratkvæðagreiðslu um framhaldið núna eða mjög fljótlega, ég skynja það.

Á síðasta landsfundi okkar Vinstri grænna var samþykkt sú stefnumörkun að við vildum ljúka aðildarviðræðunum og bera niðurstöðuna undir þjóðaratkvæði. Þá töluðum við um að reyna að ljúka þeim á ári eða svo frá síðustu kosningum. En það er ekki staðan sem er uppi núna og maður verður auðvitað að taka svolítið mið af þeim pólitíska veruleika sem er. Við erum reiðubúin að teygja okkur þetta mikið í átt að afstöðu ríkisstjórnarinnar. Ég heyri að Samfylkingin er ekki tilbúin að teygja sig jafn langt og það er hennar ákvörðun og hennar val en þetta er okkar niðurstaða.

Að því er varðar nýsköpunarstefnuna þá get ég alveg tekið undir með hv. þingmanni, ég hef verulegar áhyggjur af umhverfi nýsköpunarfyrirtækja með krónu í höftum. Ég tel reyndar að það sé ómögulegt fyrir þau ef krónan verður áfram í höftum um langa hríð og þess vegna sé brýnt (Forseti hringir.) að finna leiðir til þess að losa hana úr höftum. Ef það er ekki raunhæfur möguleiki (Forseti hringir.) á næstu missirum verði (Forseti hringir.) menn að hugsa málið upp á nýtt.