143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:52]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að það sé fyllilega lögmætt sjónarmið að vilja sjá niðurstöðu samnings. Eins og ég sagði áðan, sumir hafa gert upp hug sinn í málinu en stór hluti þjóðarinnar hefur það ekki og vill sjá samning og ég tel að það sé lögmætt sjónarmið. Þannig hefur þetta verið mjög víða.

Það er ekki rétt, tel ég, sem hefur oft verið sagt í þessari umræðu, að í öllum ríkjum sem hafa sótt um aðild að Evrópusambandinu hafi verið yfirgnæfandi stuðningur við það að sækja um. Í Eystrasaltsríkjunum, t.d. í Litháen, þegar var ákveðið að sækja um aðild að Evrópusambandinu, sýndu skoðanakannanir 80% andstöðu meðal þjóðarinnar við aðild að Evrópusambandinu en það var samþykkt í þinginu.

Við sáum líka í Svíþjóð að allar skoðanakannanir, áður en kosið var þar um niðurstöðuna, sýndu að meiri hluti var andsnúinn aðild að Evrópusambandinu en það var samþykkt á kjördag og svo sýndu skoðanakannanir eftir kjördag hið gagnstæða.

Þegar Noregur var í viðræðunum 1992 og 1993 ákvað þáverandi forsætisráðherra Noregs, Gro Harlem Brundtland, sem stóð fyrir umsókninni, að skipa sjávarútvegsráðherra í Noregi sem var eindreginn andstæðingur aðildar Noregs að Evrópusambandinu, af því að það var mat þeirra að það væri betra fyrir hagsmuni Noregs í viðræðunum, ekki síst um sjávarútvegsmál, að vera með einstakling í því embætti sem var andsnúinn aðild. Allir segja hér: Það er ekki hægt. Þetta var gert. Að vísu felldu Norðmenn aðildarsamninginn og kannski yrði það eins hér, og menn ættu þá ekki, a.m.k. sumir, að hafa áhyggjur af því.

Málið er ekki á dagskrá — málið er að sjálfsögðu á dagskrá, það er á dagskrá og fer ekki af dagskrá. Ég er þeirrar skoðunar og það er einlæg sannfæring mín að úr því sem komið er, og menn geta haft langa ræðu um það hvernig atburðarásin var og af hverju var ekki kosið eða atkvæðagreiðsla um það áður en lagt var af stað og svoleiðis, þá erum við stödd hér og það er einlæg sannfæring mín að úr því sem komið er verði enginn friður í íslensku samfélagi um þessa spurningu án þess að þjóðin taki þá ákvörðun. (Forseti hringir.) Það er alveg sama hvað menn ákveða að gera, ég held að það verði enginn friður um málið í íslensku samfélagi nema þjóðin (Forseti hringir.) taki ákvörðunina.