143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:56]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nei, ég tel ekki að Evrópustefnan sem hefur verið kynnt og ég hef lauslega rennt yfir — hún er í sjálfu sér ekki í löngu máli — sé líkleg til þess að ýta þessu máli út af dagskrá. Það er ekki hægt að afskrifa kröfuna um þjóðaratkvæðagreiðslu um stöðu málsins með þessari Evrópustefnu.

Af því ég sá hæstv. utanríkisráðherra í hliðarsal áðan og ég veit ekki hvort hann er þar enn þá vil ég segja að ég teldi að það væri tilefni til þess að ræða þessa Evrópustefnu til dæmis á vettvangi utanríkismálanefndar og jafnvel í þingsal með einhverri skýrslu um hana þannig að það gæfist færi til þess að taka hana hér til umræðu. Að sjálfsögðu tengist hún málinu öllu. Þar er að vísu mikil áhersla lögð á EES-samninginn. Ég verð að segja fyrir mína parta að ég hef haft vaxandi efasemdir um það að EES-samningurinn dugi. Það á meðal annars rætur í því að við erum í vaxandi mæli að rekast á stjórnarskrána að því er varðar að fullnusta EES-samninginn. (Forseti hringir.) Ég tel að hann dugi ekki til langrar framtíðar eins og hann er, (Forseti hringir.) annaðhvort þurfi að gera á honum breytingar til að hann rúmist innan (Forseti hringir.) stjórnarskrárinnar eða breyta stjórnarskránni eða jafnvel bara fara út úr honum (Forseti hringir.) og leysa málið með öðrum hætti.