143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:57]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem var um margt athygliverð. Mig langar aðeins að segja hv. þingmanni skoðun mína, ég tel að það sé ekki farsælt að ríkisstjórn, sem hefur þá skoðun að það sé best fyrir hagsmuni Íslands að verða ekki aðili að Evrópusambandinu, standi í samningaviðræðum við Evrópusambandið. Ég komst að þeirri niðurstöðu m.a. með því að horfa á hvernig fyrrverandi ríkisstjórn náði að halda utan um samningaviðræðurnar þar sem helmingurinn af ríkisstjórninni hafði það sem nánast sitt eina baráttumál að koma Íslandi í Evrópusambandið, það átti að vera lausnin á öllu, þá er ég að tala um Samfylkinguna, og svo hins vegar Vinstri grænir, sem voru og eru flestir, held ég, sannfærðir í hjarta sínu um að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins.

Ég tel að niðurstaðan eftir síðasta kjörtímabil segi okkur að ekki sé farsælt að fara í slíkan leiðangur sem samningaviðræður við ESB eru ef ríkisstjórnin er ekki á þeirri skoðun að það sé gott fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið.

Það kemur fram á bls. 32, kafla 6.1 í skýrslunni sem rædd var í síðustu viku og er nú til meðferðar í utanríkismálanefnd, að þau lönd sem óska eftir aðild að Evrópusambandinu gangist undir ákveðin grundvallarskilyrði sem rakin eru í skýrslunni í meginatriðum. Síðan kemur fram að gengið sé út frá því að umsóknarríki sækist eftir aðild, það er grundvallarpunktur. Ég hef aldrei skilið hvers vegna við þurfum að deila um það. Ég næ ekki þessari hugsun „að kíkja í pakkann“ en kannski getur hv. þingmaður útskýrt það betur fyrir mér.

Ég hjó eftir því í máli hv. þingmanns að hann taldi að það væri gott að málið fengi umræðu í nefndinni og mundi þróast eitthvað þar. Mig langar þá að spyrja hv. þingmann: Er hann fylgjandi því að málið komist til nefndar, vegna þess að það kom fram í máli eins þingmanns fyrr í dag í umræðu um fundarstjórn forseta, mig minnir að það hafi verið hv. þm. Sigríður (Forseti hringir.) Ingibjörg Ingadóttir, að hún væri á móti því að málið kæmist (Forseti hringir.) til nefndar. Er hv. þingmaður á sömu skoðun?