143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:59]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það voru nokkuð margar spurningar sem ég skráði niður, m.a. varðandi viðhorf hv. þingmanns um að ekki væri farsælt að ríkisstjórn andsnúin Evróusambandsaðild leiddi viðræðurnar. Ég get alveg tekið undir það sjónarmið í sjálfu sér að það er kannski ekki það heppilegasta en það breytir því ekki að þetta er mál sem hefur verið lengi í umræðu í íslensku samfélagi, þetta er ekki nýtt af nálinni í íslensku samfélagi. Sumir stjórnmálaflokkar, t.d. Sjálfstæðisflokkurinn, höfðu það í upphafi á stefnuskrá sinni að fara í Evrópusambandið, ef menn fara langt aftur í tímann, menn skulu ekki gleyma því. Stjórnmálaflokkar hafa því haft alls konar skoðanir í þessu máli.

Ég tel að það hafi alls ekki verið slæmur kostur hjá síðustu hæstv. ríkisstjórn, það voru ólík sjónarmið uppi, bara eins og í samfélaginu öllu. Og ég tel það ekkert endilega vont, eins og ég nefndi varðandi sjávarútvegsráðherra Noregs, að menn sem standa þá tiltölulega fastir fyrir í þeim málaflokkum taki að sér að leiða viðræður, vegna þess að þetta snýst um að þjóðin taki ákvörðun og það er skylda stjórnvalda að leiða fram góða kosti. Ég hef alltaf sagt: Það á að vera markmið stjórnvalda að þegar þjóðin tekur afstöðu til þessa máls þá séu báðir kostir góðir, vegna þess að það er skylda okkar að sjá til þess að Íslandi farnist vel, hvaða ákvörðun sem þjóðin tekur. Þess vegna er það mikilvægt.

Hv. þingmaður sagði líka að það hefði verið baráttumál síðustu ríkisstjórnar, eina baráttumálið. Það er nú ekki … (UBK: Samfylkingarinnar.) Ég held að það sé nú ekki alveg sanngjarnt að halda því fram.

Hér er talað um að umsóknarríki sækist eftir aðild og er vísað til þess í skýrslunni. Við lögðum þetta upp þannig að við vildum sækja um aðild að Evrópusambandinu og leiða fram í dagsljósið hvað það hefði í för með sér fyrir íslenskt samfélag. Gleymum því nú ekki hvaða aðstæður voru hér uppi 2009 og hvaða sjónarmið voru í skoðanakönnunum o.s.frv. Ég tel því að það hafi verið fullkomlega lögmætt viðhorf. (Forseti hringir.)

Varðandi það hvort málið eigi að komast til nefndar, já, málið (Forseti hringir.) á að fara til nefndar.