143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:04]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það mál sem er til umræðu og þau mál sem eru til umræðu hafa þegar vakið talsverða athygli, bæði innan lands og erlendis. Ég hef átt samtöl við nokkra erlenda fjölmiðla til að skýra þá stöðu sem hér er uppi. Eftir því sem umræðunni hefur undið fram og eftir því sem maður heyrir í fleirum er það mat mitt að sú ólga sem er í samfélaginu núna, og birtist m.a. í undirskriftum þar sem krafist er þjóðaratkvæðagreiðslu, snúist vissulega að einhverju leyti um Evrópusambandið en að mínu mati snýst ólgan og sú krafa fyrst og fremst um lýðræðið og þá breytingu sem hefur orðið á því hvernig Íslendingar upplifa lýðræði, þá kröfu sem Íslendingar setja fram um að þetta sé ákvörðun þar sem eigi að koma til kasta þjóðarinnar.

Þetta er mjög áhugaverð þróun því að það er alveg ljóst að þjóðaratkvæðagreiðslur voru fátíðir viðburðir hér þangað til á síðasta kjörtímabili. Ég held þó að þjóðaratkvæðagreiðslur séu alls ekki svar við öllum þeim spurningum sem vakna í tengslum við lýðræðisþróun. Ég nefni þann ágæta fund sem haldinn var í Hannesarholti sl. miðvikudagskvöld þar sem heimspekingar, stjórnmálafræðingar og fjölmiðlafræðingar fóru yfir stöðuna í stjórnmálunum út frá akademísku sjónarhorni. Eitt af því sem kom fram þar var að það sem Íslendingar og stjórnmálamenn og stjórnkerfið þurfa að velta fyrir sér og læra sé hvernig við undirbúum ákvarðanir, hvernig við getum gert það í auknu samráði þannig að ekki þurfi að koma til ólgu á borð við þá sem við upplifum núna, sem ég held að snúist fyrst og fremst um þá kröfu sem fólk gerir um að hafa áhrif á þróun mála.

Það er ekkert óeðlilegt að fólk geri þá kröfu í ljósi þeirra orða sem féllu hér fyrir kosningar. Ég held að það sé ekki ósanngjarnt að segja, hafandi tekið þátt í mjög mörgum fundum og verið í sjónvarpsþáttum með formönnum þeirra stjórnmálaflokka sem nú sitja í ríkisstjórn, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, að ég hafði sjálf þær væntingar að þeir flokkar mundu stefna að þjóðaratkvæðagreiðslu fyrr en síðar á kjörtímabilinu um framhald málsins þrátt fyrir afstöðu sína til Evrópusambandsins. Þannig skildi ég það og þannig skildi fólk það sem hlustaði á þá ágætu menn fyrir kosningar og því er sú krafa sem nú kemur fram um aðkomu þjóðarinnar fullkomlega eðlileg. Hún byggir á réttmætum væntingum og það sem hefur verið sagt síðar um að betra hefði verið að þessi loforð hefðu verið orðuð öðruvísi, það sem hefur verið sagt um að aðstæður hafi breyst af því að flokkarnir tveir hafi farið saman í ríkisstjórn eru ekki rök sem halda. Það liggur auðvitað fyrir að ef flokkarnir eru andsnúnir aðild að ESB en lofa eigi að síður þjóðaratkvæðagreiðslu breytir það engu í raun og veru. Þá þarf að minnsta kosti að taka fram fyrir kosningar að það muni hafa áhrif með hverjum þeir eru í stjórnarsamstarfi.

Þetta er því ástæðan fyrir þeim kröfum sem nú eru uppi. Ég vil nota tækifærið á nýjan leik, eins og ég gerði í fyrri ræðu minni um tillögu hæstv. utanríkisráðherra, og vekja athygli á þeirri tillögu sem ég kalla málamiðlunartillögu, sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum lagt fram og hæstv. utanríkisráðherra, sem hér situr, hefur lýst sig reiðubúinn til að skoða. Hún snýst um að því hléi sem nú er á viðræðum verði haldið áfram en að á kjörtímabilinu, og það er skilið eftir opið hvenær það verður, verði efnt til þeirrar þjóðaratkvæðagreiðslu sem ég tel að kjósendur hafi haft réttmætar væntingar um að yrði haldin jafnvel fyrr en síðar, og þá vitna ég til orða formanns Sjálfstæðisflokksins.

Þetta hefur vakið athygli. Ég vitnaði í erlendra fjölmiðla sem hafa mikið viljað spyrja út í afstöðuna til Evrópusambandsins. Ég held að það sem komi þeim einna helst á óvart í samtali mínu við þá sé að málið snúist fyrst og fremst um lýðræðisþróun á Íslandi. Ég held að við sem sitjum núna á Alþingi höfum gullið tækifæri til þess að leiðrétta það sem ég tel vera mistök í tillögu hæstv. utanríkisráðherra, að gera ekki ráð fyrir aðkomu þjóðarinnar. Ég tel að við höfum tækifæri til þess að leiðrétta þau mistök. Ég tel líka að þau viðbrögð sem sú tillaga hefur mætt á meðal þjóðarinnar hljóti að vekja okkur til umhugsunar um það sem ég nefndi áðan, sem er þá aðdragandi og undirbúningur slíks tillöguflutnings og slíkra ákvarðana. Ég held að þar gætum við öll lært sitthvað um að með auknu samráði (Forseti hringir.) í aðdraganda ákvarðana getum við náð aukinni sátt um slíkar ákvarðanir.