143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:10]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni góða og efnisríka ræðu og inna hana eftir viðhorfum til framhalds mála.

Ég er sammála þingmanninum um að mikilvægt sé að undirbúa almennilega flóknar ákvarðanir sem varða þjóðarhag. Það er ekki reynt að gera það af hálfu ríkisstjórnarinnar í þessu máli, því að ekki er beðið um hagsmunamat frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og hlaupið til þegar skýrsla stofnunarinnar liggur fyrir og hún notuð sem skálkaskjól til þess að slíta viðræðum.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvaða kosti hún sér þá í stöðunni til að undirbyggja svona ákvörðun. Ég hef efasemdir um hléhugmyndina sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur spilað út vegna þess að ég sé ekki að í þessu mikla hagsmunamáli sé hægt að ákveða að hafa hlé, það þurfi að vinna áfram greiningar á hagsmunum ólíkra atvinnugreina og almennings í landinu og það þurfi að leggja mat á ólíka þætti í því efni og undirbyggja með þeim hætti upplýsta ákvörðun, því að tillaga ríkisstjórnarinnar byggir ekki á neinni upplýsingu og þetta er ekki upplýst ákvörðun sem ríkisstjórnin tekur.

Önnur leið er síðan að fara þá málefnalegu og skynsamlegu leið sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð samþykkti á landsfundi 2009, að hún væri tilbúin að láta þjóðina ákveða niðurstöðu í þessu máli, jafnvel að undangenginni umsókn, vegna þess að það er önnur leið til að taka upplýsta ákvörðun, að fara og ná í þann besta samning sem mögulegur er, leggja hann svo undir þjóðina. Ef við förum ekki þá leið, sem ég ítreka að ég tel skynsamlegasta, þ.e. leiðina sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð ákvað að fara 2009 — og hefði betur verið ef fleiri flokkar hefðu farið þá málefnalegu leið — hvaða leið getum við þá farið, (Forseti hringir.) hvernig getum við þá byggt betur undir (Forseti hringir.) ákvarðanatöku okkar í Evrópumálum?