143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:15]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega athyglisvert að í uppleggi ríkisstjórnarinnar í beiðninni til Hagfræðistofnunar Háskólans er ekki óskað eftir hagsmunamati, þannig að grundvallarforsendan sem hlyti að vera til að taka ákvörðun — ríkisstjórnin hefur engan áhuga á að fá svar við greiningu á hagsmunum Íslands og komast að efnislegri niðurstöðu. Það vantar auðvitað fjöldamargt inn í skýrsluna þó að hún sé góð um þá þætti sem hún tekur til, en þeir eru allt of, allt of fáir. Þess vegna er alveg nauðsynlegt að mínu viti að bíða niðurstöðu Alþjóðamálastofnunar og skoða að hvaða leyti sú skýrsla kunni að bæta þar í eyðurnar, fylla í skallablettina. En það er líka mikilvægt að búa til farveg, og þá bið ég hv. þingmann aðeins að hugsa með mér og fabúlera með mér um hvað við gætum gert með tillögu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um undirbúning að aðkomu þjóðarinnar á næstu árum, hvort við (Forseti hringir.) gætum ekki komið á ferli þar sem við mundum greina hagsmuni, (Forseti hringir.) ólíka hagsmuni ólíkra hópa og þar með auðvelda þjóðinni að taka upplýsta (Forseti hringir.) ákvörðun um framhaldið.