143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:17]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það gleður mig alltaf svolítið þegar umræða fer að snúast meira um lýðræðið vegna þess að stefna okkar pírata hvað varðar Evrópusambandið er og hefur alltaf verið sú að við viljum að það sé ákvörðun þjóðarinnar, teljum að svo sé og eigi að vera. Hv. þingmaður nefndi svolítið lýðræðismál í ræðu sinni og er það vel.

Ég velti fyrir mér með hliðsjón af því að nú hefur hv. þingmaður vissulega verið nokkuð mikið lengur í pólitík en ég, og í ríkisstjórn í þokkabót, hvaða forsendur hv. þingmaður telur eðlilegast að liggi til grundvallar ákvörðunar um að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin mál, vegna þess að það eru nokkrar útfærslur mögulegar. Ein er sú, eins og er í víst Danmörku að mér skilst, að þriðjungur þings geti beðið um þjóðaratkvæðagreiðslu, en það hefur bara einu sinni gerst í sögu Danmerkur að það hafi verið nýtt. Það hefur auðvitað þann kost að stjórnmálamenn ræða kannski frekar hlutina til enda, en ekki verður af eiginlegum þjóðaratkvæðagreiðslum í kjölfarið á því. Þess vegna hefur mér litist betur á stefnu okkar pírata, við viljum frekar að það sé þjóðin sjálf sem kalli eftir því að þjóðaratkvæðagreiðslur verði við eitthvert tiltekið hlutfall kosningarbærra manna, kannski 5%, 10%, eða eitthvað svoleiðis.

Ég velti fyrir mér, vegna þess að hv. þingmaður nefndi þjóðaratkvæðagreiðslu á þessum tímapunkti, bara svona almennt hvort hv. þingmaður líti svo á að þjóðaratkvæðagreiðslur séu til þess að bæta pólitíska fyrirkomulagið hér á þinginu, eins og hugmyndin er í Danmörku, (Forseti hringir.) eða hvort hv. þingmaður telji það eðlilegra að fyrirkomulag sé til staðar sem raunverulega valdi þjóðaratkvæðagreiðslu.