143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:23]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef svo sem ekki nein skýr svör um hvaða prósentutölu eigi að miða við. En ég vek athygli hv. þingmanns á því að á Íslandi er svo sannarlega ekki nein kreppa í þátttöku. Þegar við horfum á þátttöku í kosningum, þegar við horfum til að mynda á þá undirskriftasöfnun sem nú stendur yfir þá eru yfir 20% kosningarbærra manna búin að skrifa undir þá söfnun. Það hefur ekki verið vandkvæðum háð, getum við sagt, að virkja fólk til þátttöku, þannig að þær áhyggjur sem við höfum haft af því eru kannski ekki endilega byggðar á miklum rökum einmitt núna þó að ég skuli ekki segja um hvað verði til framtíðar.

Hvað varðar prósentutölu þá segi ég að við í VG höfum ekki lent í einhverri tiltekinni tölu, en það sem hefur verið í umræðunni hefur verið eitthvað á milli 10 og 20% eins og hv. þingmaður nefndi, einhver slík tala sem tiltekinn hluti kosningarbærra manna geti þá krafist atkvæðagreiðslu um tiltekið mál, og þá ekki bara endilega lög heldur líka önnur mál eins og (Forseti hringir.) ég nefndi áðan, til dæmis framkvæmdir á borð við línulögn yfir Sprengisand eða eitthvað slíkt, þá væri eðlilegt að það væri líka (Forseti hringir.) hægt að leggja í dóm þjóðarinnar.