143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:29]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið sem var mjög skýrt. Það er gott að við tölum skýrt hérna.

Það er annað atriði sem ég held að við séum ekki alveg sammála um, ég hef þá skoðun að við eigum að draga aðildarumsókn okkar til baka og slíta viðræðum. Það hefur margoft komið hér fram og ég lagði fram þingmál þess efnis á fyrra kjörtímabili. Ég hef þá skoðun að verði einhvern tíma aftur lagt af stað í slíkan leiðangur þá muni það byggja á hagsmunamati. Ég tel að við eigum að læra af reynslunni af síðasta kjörtímabili að það sé ekki vænlegt að fara í slíkan leiðangur nema fyrir liggi vilji meiri hluta Alþingis fyrir því að ganga í Evrópusambandið og líka þjóðaratkvæðagreiðsla. Ég held að þetta séu þeir tveir þættir sem þurfi að liggja skýrt fyrir. Ég tel að við þurfum að draga lærdóm af reynslunni á síðasta kjörtímabili (Forseti hringir.) varðandi framgang málsins í meðförum fyrrverandi ríkisstjórnar.